Áfram gakk – áramótaannáll 2023

Árið 2023 hefur verið á margan hátt gott á Vestfjörðum. Mikill uppgangur er í atvinnulífinu og fjárfestingar eru umtalsverðar á svæðinu bæði af hálfu hins opinbera og einkaaðila. Um áramót hefur undirrituð síðustu ár farið stuttlega yfir það sem efst hefur verið á baugi á árinu og horft lítillega fram á veginn.  Svo verður einnig um þessi áramót.

  1. Nýsköpun og hugvit var í sviðsljósinu á þessu ári í kjölfar ævintýralegrar velgengni hins ísfirska fyrirtækis Kerecis sem hefur á síðustu 15 árum byggst upp á Ísafirði, Reykjavík og ekki síst í Bandaríkjunum. Það var fallegur júlídagurinn á Ísafirði þegar salan á Kerecis til Coloplast var tilkynnt í Ísafjarðarbíói og nokkuð “moviestar” yfirbragð á Ísafirði.
  2. Orka & orkuskortur hafa verið til umræðu á landsvísu og víst er að svo verður áfram um nokkurt skeið. Orkumál Vestfjarða hafa verið til umræðu síðustu ár og leitt er að þrátt fyrir hillumetra af skýrslum hefur hið opinbera engin raunveruleg svör. Á Vestfjörðum þarf meiri orkuframleiðslu og jafnframt þarf að tvöfalda Vesturlínu. Taka þarf ákvarðanir um næstu skref strax til að svæðið geti tekið þátt í orkuskiptunum framundan og haldið áfram uppbyggingu atvinnulífs og samfélags.
  3. Loftslagsmál, orkuskipti og umhverfismál hafa fengið meiri hljómgrunn og með þátttöku Vestfjarðastofu, sveitarfélaga og fyrirtækja í Evrópuverkefninu RECET munu þessi mál verða enn meira til umræðu næstu árin sem er vel.  Samhliða aukinni orkuþörf er sjálfsagt að farið verið eins vel með þá orku sem til staðar er á svæðinu og unnt er og við séum meðvituð um áhrif okkar á umhverfið og reynum allt sem mögulegt er til að þau verði sem minnst.
  4. Skortur á íbúðahúsnæði stendur þróun samfélags og atvinnulífs fyrir þrifum á svæðinu. Þrátt fyrir mikinn skort er verð á íbúðahúsnæði enn víða vel undir byggingarkostnaði. Það gæti líka átt skýringar í því hve húsnæði er víða orðið gamalt þar sem lítið hefur verið byggt á svæðinu síðustu 20-30 ár. Það sést vel að fjölgun verður í þeim byggðakjörnum og sveitarfélögum þar sem næst að byggja nýtt íbúðahúsnæði.
  5. Nýir vegir og brýr gleðja marga Vestfirðinga og aðra vegfarendur á svæðinu þessi misserin en í haust var ný brú yfir Þorskafjörð vígð með viðhöfn og nokkru síðar opnaði vegurinn margumræddi um Teigsskóg.  Framkvæmdir eru í fullum gangi á nýjum 12 km kafla á Dynjandisheiði og hafa rúmlega 6 km af þeirri framkvæmd þegar verið opnaðir fyrir umferð. Þeir sem þurft hafa að hossast á 70 ára gömlum malarvegum gleðjast sérstaklega yfir nýjum og fallegum veglínum.
  6. Áföll í atvinnulífi hafa verið nokkur á árinu þó víða hafi gengið vel. Það var mikið áfall í Strandabyggð snemmsumars þegar tilkynnt var um lokun Hólmadrangs og einnig í Ísafjarðarbæ þegar Baader tilkynni um lokun á starfsstöð sinni sem áður var hið mikla nýsköpunarfyrirtæki 3X Technology sem áður hafði sameinast Skaganum í Skagann/3X. Kvótasamdráttur og slysasleppingar hafa líka haft neikvæð áhrif á atvinnulíf svæðisins.
  7. Vöxtur og vaxtarverkir í fiskeldi hafa verið ofarlega á baugi á Vestfjörðum. Fiskeldið er ótvírætt drifkraftur vaxtar og uppgangs á Vestfjörðum undanfarin ár og atvinnugreinin er orðin ein af burðarásum atvinnulífs á svæðinu. Það er því eðlilegt að fólk taki mjög nærri sér þá miklu og að mestu neikvæðu umræðu sem hefur verið um fiskeldið á þessu ári.  Mjög jákvæðir hlutir hafa líka verið að gerast í þessari mikilvægu atvinnugrein og má nefna skráningu Arnarlax á íslenskan hlutabréfamarkað, hið nýja vinnsluhús Arctic Fish í Bolungarvík og að Háafell uppskar fyrstu laxa úr Ísafjarðardjúpi síðasta haust.
  8. Menntun á Vestfjörðum hefur fengið meira vægi á árinu og má nefna samstarfssaming fiskeldisfyrirtækjanna við Menntaskólann á Ísafirði sem undiritaður var í byrjun árs um þróun á nýrri námsbraut sem hlotið hefur nafnið Hafbrau og tekur til starfa haustið 2024. Í undirbúningi er bygging nýs verknámshúss við Menntaskólann á Ísafirði sem verður mikið framfaraskref fyrir allt svæðið þar sem ákall er um iðnaðarmenn á öllum sviðum.  Nýjir nemendagarðar Lýðskólans á Flateyri og Stúdentagarðar Háskólaseturs Vestfjarða voru opnaðir á árinu 2023 og verða vonandi báðir til að efla starfsemi þessara mikilvægu stoða menntunar á Vestfjörðum.
  9. Ferðaþjónustan er á mikilli siglingu á Vestfjörðum þetta árið en greinilegt er í samtölum við ferðaskrifstofur og söluaðila að mikil þörf er á frekari uppbyggingu gististaða af öllum stærðum og gerðum. Mikill fjöldi farþega skemmtiferðaskipa hefur verið í umræðunni en á því sviði hefur einnig verið mikil þróun og verður vonandi áfram. 
  10. Menningin fékk nokkurn sess á Vestfjörðum á árinu og nefna má mikla grósku í starfsemi Kómedíuleikhússins og barnamenningarhátíðina Púkann sem haldin var í fyrsta sinn og tókst vel. Mikilvægt er að söfn og sýningar á svæðinu eflist og dafni og að opnunartími þeirra verði aukinn þar sem þau eru lykilþáttur í lengri ferðamannatíma á svæðinu. Hátíðir svæðisins gegna þar miklu hlutverki líka eins og sést á þeim fjölda sem sækir Aldrei fór ég suður, Fossavatnsgönguna og Skjaldborg svo nokkrar séu nefndar.

Í þessum pistli hef ég stiklað á stóru varðandi árið 2023. Við á Vestfjarðastofu erum spennt fyrir árinu 2024 sem verður mikið stefnumótunarár fyrir Vestfirði þar sem unnið verður að gerð Svæðisskipulags, ný Sóknaráætlun unnin sem og loftlslags- og orkuskiptaáætlanir fyrir sveitarfélögin á svæðinu. Leitað verður til íbúa og fyrirtækja um samstarf við gerð þessara áætlana sem gera má ráð fyrir að muni varða leiðina næstu ár og jafnvel áratugi.

Undirrituð vill fyrir hönd stjórnar og starfsmanna Vestfjarðastofu óska Vesfirðingum og landsmönnum öllum gleðilegs árs með þökk fyrir árið sem er að ljúka.

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir
Framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu

DEILA