Vestfirðir: fjölgar um 5,1% síðustu 3 ár – landsfjölgun 7,9%

Mynd: Mats Wibe Lund.

Íbúum á Vestfjörðum hefur fjölgað um 5,1% frá 1. desember 2020 til 1. nóvember 2023. Þeir voru 7.099 fyrir tæpum þremur árum en voru um síðustu mánaðamót 7.463. Landsmönnum hefur á sama tíma fjölgað um 7,9%.

Mest hefur fjölgað í Ísafjarðarbæ á þessum tíma eða um 134 íbúa. Í Vesturbyggð fjölgaði um 120 manns, um 66 íbúa í Bolungavík og í Súðavík fjölgaði um 30 manns.

Fækkað hefur á Tálknafirði, í Kaldrananeshreppi og Strandabyggð.

Hlutfallslegt fjölgaði mest í Árneshreppi eða um 32,5% en á bak við það eru aðeins 13 manns. Í Súðavík fjölgaði um 14,9% á þessum tíma , í Vesturbyggð um 11,3%, um 6,9% í Bolungavík og um 3,8% í Ísafjarðarbæ.

Íbúafjölgunin í Súðavík, Vesturbyggð og Árneshreppi er umfram fjölgunina á landsvísu.

Vestfirðir eru enn fámennasta landssvæðið í yfirliti Þjóðskrár, en nálgast Norðurland vestra hröðum skrefum. Nú munar aðeins 54 íbúum á þessum tveimur landssvæðum en fyrir þremur árum munaði 313 íbúum.

DEILA