Sunndalsá: Hafrannsóknarstofnun kom ekki að veiði í ánni

Sunndalsá.

Leó Alexander Guðmundsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að stofnunin hafi ekki komið að veiði í Sunndalsá í september síðastliðinn. En stofnunin hafi fengið laxa úr veiðinni til greiningar.

Í frétt Bæjarins besta 31. október var haft eftir Finni Torfa Magnússyni, fulltrúa eins af eigendum, að Leó Alexander hefði haft samband sama dag og farið var í ána og hefði Finnur veitt samþykki fyrir veiðinni.

„Hið rétta er að ég lét Finn Torfa vita að við hefðum fengið meinta eldislaxa úr ánni til greiningar.“

Haft var samband við Finn Torfa og þetta borið undir hann en hann vildi ekki tjá sig frekar um veitingu leyfis fyrir því að fara í ána.  

Guðni Magnús Eiríksson, sviðsstjóri lax og silungsveiðisviðs á Fiskistofu hefur upplýst að Fiskistofa hafi ekki komið að veiðunum í Sunndalsá.

Hópur manna fór í ána og veiddu í net 16 laxa, sem þeir töldu vera eldislaxa og sendu til greiningar. Ekki var aflað samþykkis allra eigenda fyrir veiðiferðinni sem var farin eftir að veiðitímabilinu lauk.

DEILA