Ísafjörður: Lyfja flutt í stærra húsnæði við Hafnarstræti

Jónas Þór Birgisson, lyfjarfræðingur við störf í apótekinu.

Apótek Lyfju á Ísafirði flutti í síðasta mánuði úr húsnæði sínu við Pollgötuna og er komið í miðbæinn á Austurvegi 2, sem er á horni Austurvegar og Hafnarstrætis, í gamla húsnæði Kaupfélags Ísfirðinga.

Jónas Þór Birgisson, apótekari var ánægður með breytinguna þegar Bæjarins besta leit inn í vikunni. Hann sagði að húsnæðið væri 50% stærra en það sem apótekið hafði á Pollgötunni. Rúmt og bjart er í apótekinu gott að finna vörurnar. Eins fannst honum það gott að vera kominn með starfsemina í miðbæinn.

Kaupfélag Ísfirðinga reisti húsið og tók í notkun 1931 og þar var aðalverslun félagsins um langt árabil. Síðast var Kristbjörn Sigurjónsson með vinsæla skíðavöruverslun þarna í hjarta bæjarins.

Apótekið er í björtu og rúmgóðu húsnæði.

Apótek Lyfju er komið í miðbæinn, hjarta Ísafjarðar.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA