Fasteignaskattar: fasteignamat hefur hækkað þrefalt meira en laun síðustu 3 ár

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. mynd: isafjordur.is

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram bókun í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar þegar greidd voru atkvæði um álagningu fasteignaskatta. Þeir vildu lækka fasteignaskattinn á íbúðarhúsnæði meira en meirihluti Í listans þar sem hækkun fasteignamatsins frá 2021 til 2024 hafi verið 63% en laun hafi hækkað á sama tíma um 22%. Bæjarstjórnin lækkaði álagningarhlutfallið úr 0,56% í 0,54%. Sjálfstæðismenn vildu lækkað meira og lögðu til 0,52%. Sú tillaga var felld. Steinunn G. Einarsdóttir og Jóhann Birkir Helgason bókuðu:

„Sjálfstæðisflokkurinn fagnar að til standi að lækka álagningarhlutfall fasteignagjalda úr 0,56% í 0,54% en við teljum ráðrúm til að lækka í a.m.k 0,52% enda eru tekjur A hluta að hækka um 525 milljónir milli ára. Ef við berum sama fasteignamat sl. ára í Ísafjarðarbæ þá hefur verið töluverð hækkun. Næsta ár verður fasteignamatið 76.6 mlja. Hækkun fasteignamats frá árinu 2021 er 63%. Ef við berum saman hækkun fasteignagjalda og hækkun launa á þessu tímabili þá hækkuðu laun frá árinu 2021 til 2024 um 22,5%. Hækkun fasteignaskatts er því mun meiri en hækkun launa. Lækkun um 0,02% til viðbótar eða í 0,52% hefur þau áhrif að fasteignaskattar lækka um 12-13 millj. Greiðslur úr Jöfnunarsjóði lækkar þegar álagningarhlutfall lækkar, þegar tekið er tillit til þess lækka tekjur um 18-19 millj. Til að koma til móts við þessa lækkun er lagt til að ekki verði farið í nýráðningar eins og áætlunin gerir ráð fyrir.“

Styðja lækkun á álögum á íbúa

Fulltrúar Framsóknarflokksins, Kristján Þór Kristjánsson og Elísabet Samúelsdóttir studdu lækkun meirihlutans en sátu hjá við tillögu Sjálfstæðisflokksins.

„Fulltrúar Framsóknar sátu hjá við afgreiðslu tillögu Sjálfstæðisflokks um lækkun fasteignarskatts niður í 0.52%. Ekki er ljóst í tillögunni hvar sækja eigi þær tekjur sem lækka við þessa breytingu. Fjárhagsáætlun er ekki klár og erfitt að gera sér grein fyrir hvaða áhrif þessi lækkun mun hafa á heildarniðurstöðu fjárhagsáætlunar. Bæjarstjórn samþykkti í fyrra fjárhagsleg markmið til framtíðar sveitarfélaginu til heilla. Með lækkun í 0.54% erum við að stíga skref í átt að lægri álögum á íbúa ásamt því að ná tökum á rekstri sveitarfélagsins og ná markmiðum í rekstri. Einnig hafa allar tekjurskerðingar áhrif á fjárfestingagetu sveitarfélagsins. Við sjáum fyrir okkur að endurskoða ákvörðun okkar og styðja tillögu Sjálfstæðisflokksins ef vinna við fjárhagsáætlun og hagræðingaraðgerðir sýna fram á að við gætum náð markmiðum okkar. Framsókn vill stíga styttri og skynsöm skref í átt að fjárhagsmarkmiðum samfélaginu til heilla.“

DEILA