Skráning örnefna og fornleifa á Vestfjörðum

Þriðjudaginn 17.október milli kl. 16:00-19:00 verður námskeið í Holti í Önundarfirði um hvernig skrá eigi örnefni og fornleifar.
Örnefni eru mikilvægur hluti af menningu landsins enda segja þau til um nöfn á fjöllum, fjörðum fljótum, hlíðum og hæðum. Fjölmargar örnefnarskrár eru til og búið er að skrá mörg örnefni inn á kort/gagnagrunn en mikið verk er þó eftir.

Það að staðsetja örnefni á kort krefst aðkomu staðkunnugra sem þekkja hvar örnefnin eiga nákvæmlega heima.
Á námskeiðið koma sérfræðingar frá Landmælingum Íslands og fara yfir það hvernig standa eigi að skráningunni. Námskeiðið gerir ekki kröfu um mikla tölvukunnáttu en LMÍ hefur stutt vel við bakið á þeim sem taka þátt í að skrá örnefni.

Í seinnihlutanum kemur fulltrúi frá Minjastofnun og mun segja frá því hvernig hægt er að skrá fornleifar með einföldu appi í símanum. Talið er að eftir eigi að skrá um 80% af fornleifum Íslands. Til að hægt sé að ná utan um þennan þjóðararf þarf samvinnu margra og með þessu einfalda appi geta allir tekið þátt í að koma þeim á kortið. Ekki er um formlega fornleifaskráningu að ræða sem er unnin af fagmönnum heldur er skráð með appinu staðsetning fornleifanna auk þess sem hægt er að setja inn myndir og stutta lýsingu. Appið hentar t.d. mjög vel fyrir göngufólk sem rekst á fornleifar á ferðum sínum og landeigendur sem vilja koma fornleifunum á skrá.
Sýnt verður hvernig appið virkar og farið yfir mikilvæg atriði varðandi umgengni við fornleifar.

Fornminjafélag Súgandafjarðar og áhugafólk um skráningu örnefna og fornleifa stendur að námskeiðinu í samvinnu við Landmælingar Íslands og Minjastofnun Íslands.

DEILA