Prófessor í Bergen: lítil hætta á erfðablöndun vegna laxeldis

Albert K. Imsland prófessor í fiskeldisfræðum við háskólann í Björgvin í Noregi segir litla hættu á erfðablöndun milli villts lax og eldislax vegna þess hvernig kerfið er sem sett hefur verið upp á Íslandi.

Í viðtali við Fiskeldisblaðið árið 2018 benti Albert á að hinn mikli ótti við erfðablöndun ætti sér varla stoð í raunveruleikanum, einkum vegna þess að eldið á Íslandi hefi aðeins verið leyft þar sem fáar eða engar laxveiðiár væru til staðar. Rannsóknir í Noregi sýndu að hverfandi líkur væru á því að fullorðinn lax sem slyppi úr eldiskvíum lifði af eða endurheimtist eða aðeins 0,009%. Ef um yngri fisk væri að ræða væri hlutfallið heldur hærra eða 0,4%. Árið 2017 mátti í Noregi búast við 13,5 fiski sem myndi lifa af að sleppa úr kví. Einnig nefndi Albert að kynbæturnar sem eldislaxinn hefur gengið í gegnum geri það að verkum að honum gengur lakar í hrygningu og að náttúruvalið sjái til þess að villti laxinn hafi yfirburði í þessum efnum. Í Noregi hafi það gerst þegar kvíaeldið hófst fyrir áratugum að kvíar voru settar í alla firði án tillits til laxveiðiáa. Því hafi íblöndun orðið í mörgum ám og mestur vandi væri þar sem villti stofninn væri lítill. Almennt væri íblöndunin milli 5% og 10%. Nýjustu rannsóknir sýndu, sagði Albert árið 2018, að íblöndunin hefði ekki varanleg neikvæð áhrif á villta stofninn.

Í áhættumati Hafrannsóknarstofnunar frá 2020 er miðað við að íblöndunin sé ekki meiri en 4%, sem er mun strangara en miðað er við í Noregi.

Bæjarins besta hafði samband við Albert K. Imsland og spurði hann hvort skoðun hans hefði eitthvað breyst frá 2018 m.a. vegna slysasleppingarinnar í Patreksfirði i sumar.

„Nei hún hefur ekkert breyst. Ég reyndi að benda á að íblöndun eldislaxa í Noregi hefur ekki haft þessi áhrif sem haldið er fram í umræðunni hér heima. Ég benti líka á að ár með litla náttúrlega laxastofna eru í meiri hættu en ár með stóra laxastofna.

yfirgnæfandi líkur á að eldisfiskar drepist

Reynsla Norðmanna, og rannsóknir í Noregi, sýna að yfirgnæfandi líkur eru á því að eldislaxar sem sleppa úr kvíum drepist og valdi litlum usla á sjálfbærum, villtum laxastofnum. En mikilvægt frumskilyrði er að eldisfyrirtæki sjái til þess með öllum ráðum að fiskur verði ekki kynþroska í kvíum. Þetta má gera með ljósastýringu (í Noregi er fiskur alinn á stöðugu ljósi frá október/nóvember og fram til vors, yfirleitt um miðjan mars) eða með því að framleiða geldan lax (t.d., þrílitna lax). Fiskur sem ekki er kynþroska getur eðli málsins vegna ekki hrygnt og líkur á að hann erfðablandist villtum fiski því í algeru lágmarki.

Þetta frumskilyrði virðist, því miður, hafa verið brotið í tilviki Arctic Fish í nýlegu stroki lax frá eldisstæðinu í Kvígindisdal í Patreksfirði þar sem verulegur hluti laxins reyndist kynþroska.“

DEILA