Mataræði, heilsa og sjálfbærni – horfum saman til framtíðar í Vísindaporti Háskólaseturs

Í næsta vísindaporti Háskólaseturs verður Bryndís Eva Birgisdóttir prófessor í næringarfræði með fyrirlestur.

Hér verður farið yfir víðan völl tengt rannsóknum á mataræði og heilsu. Þá verður sérstaklega horft til þess hvernig sjálfbærni hefur verið fléttað inn í nýjar ráðleggingar um mataræði. Það á til dæmis við um nýjar Norrænar næringarráðleggingar sem kynntar voru á Íslandi í sumar í kjölfar margra ára vísindavinnu norrænna sérfræðinga.

Hvernig horfa slíkar ráðleggingar við áheyrendum? Hvaða þættir geta hugsanlega hindrað og hvaða þættir geta hugsanlega stutt við breytingar á mataræði í þessa átt?
Síðustu mínútúr erindisins fer fram lítil gagnvirk vinnustofa í kringum efnið en fyrirlesari verður einnig á staðnum eftir fundinn og ræðir málin gjarnan áfram.

Bryndís Eva Birgisdóttir er prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands. Eftir meistaranám í klínískri næringarfræði frá Háskólanum í Gautaborg í Svíþjóð lauk Bryndís Eva doktorsnámi við raunvísindadeild Háskóla Íslands.

Rannsóknir hennar beinast að tengslum næringar við bæði líkamlega og andlega heilsu, meðal annars í gegnum þarmaflóru, með bæði íslenskum vísindamönnum og í gegnum öflugt alþjóðlegt samstarf. Þá hefur Bryndís mikinn áhuga á þeim fjölmörgu þáttum sem hafa áhrif á hvað við borðum, en til að afhjúpa þá leyndardóma er mikilvægt að skoða fæðukerfið í heild.

Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða á 2. hæð og stendur yfir frá kl. 12.10 til 13.00 og er öllum opið.

DEILA