Málþing hjá Albaola á Spáni um baskneska hvalveiðibátinn

Þátttakendur á málþinginu um baskneska hvalveiðibátinn.

Á dögunum var haldið málþing í fornbátasafninu og skipasmíðastöðinni Albaola í Pasaia í Baskalandi Spánar. Yfirskrift málþingsins var „Baskneski hvalveiðibáturinn, uppruni iðnaðarhvalveiða.“ Albaola er samstarfsaðili Baskavinafélagsins á Íslandi í verkefni sem fékk styrk frá Creative Europe fyrr á árinu um að standa að uppbyggingu Baskaseturs í Djúpavík og viðburðum sem tengja þjóðirnar, Baska og Íslendinga. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur var á málþinginu með erindi um leitina að basknesku hvalveiðiskipunum sem fórust í Reykjarfirði á Ströndum í september 1615 og lýsisframleiðslu á Íslandi frá upphafi vega. Ásdís Thoroddsen sagði frá íslenska súgbyrðingnum og sýndi kvikmynd sína Súðbyrðingur – Saga báts. Aðrir sem tóku til máls á málþinginu af Íslands hálfu voru Ólafur J. Engilbertsson formaður Baskavinafélagsins, Héðinn Birnir Ásbjörnsson formaður Baskaseturs og Alex Tyas verkefnisstjóri hjá Háskólasetri Vestfjarða.

Af hálfu heimamanna voru með erindi Xabier Agote, forstjóri Albaola, Xabier Alberdi forstjóri Baskneska Sjóminjasafnsins, Ander Arrese kvikmyndagerðarmaður, Álvaro Aragón Ruano sagnfræðingur, Beñat Egiluz Miranda neðansjávarfornleifafræðingur og Maurizio Boriello þjóðfræðingur og bátasmíðakennari frá Ítalíu. Aðrir erlendir fræðimenn sem þátt tóku voru Toby Jones fronleifafræðingur frá Bretlandi, Brad Loewen mannfræðingur frá Kanada og Peter Bakker málvísindamaður frá Danmörku.

Einnig ávörpuðu málþingið Teo Alberro Bilbao borgarstjóri Pasaia og Maria José Bilbao ræðismaður Íslands í Baskalandi.

Tveir íslenskir bátasmiðir, Hafliði Aðalsteinsson og Einar Jóhann Lárusson eru nú á námskeiði hjá Albaola í gerð basknesks léttabáts, svokallaðs „txalupa“, sem verður á sýningu Baskaseturs í Djúpavík.

Ólafur Engilbertsson flytur erindi sitt.

Á myndinni eru Xabier Agote forstjóri Albaola og Ólafur J. Engilbertsson formaður Baskavinafélagsins á Íslandi.

Mynd af freigátunni San Juan sem Albaola er að endursmíða og ætlar að sigla á yfir Atlantshafi eftir um tvö ár.

DEILA