Laxeldi: engir erlendir farandverkamenn

Engir erlendir farandverkamenn eru starfandi við laxeldi á Vestfjörðum í þremur stærstu eldisfyrirtækjunum. Þetta er samkvæmt svörum fyrirtækjanna við fyrirspurn Bæjarins besta. Tilefnið er að Inga Lind Karlsdóttir, stjórnarmaður í íslenska náttúruverndarsjóðnum, Icelandic Wildlife Fund, hélt því fram opinberlega í þættinum Ísland í býtið þann 6. október sl. að það væri mest erlendir farandverkamenn sem störfuðu við fiskeldið.

Hjá Arnarlax eru 189 starfsmenn og allir eru með lögheimili hér á landi. Þar af eru 136 með lögheimili á sunnanverðum Vestfjörðum.

Hjá Arctic Fish eru um 125 starfsmenn og eru allir búsettir á starfssvæði fyrirtækisins, enginn er frá starfsmannaleigum.

Sömu sögu er að segja af Háafelli. Þar eru 22 starfsmenn við fiskeldið, þar af 6 erlendir og allir búsettir við Djúp. Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri Háafells sagði að sér fyndist að talað væri af nokkurri lítilsvirðingu um þá sem starfa við fiskeldi. Svona væri ekki talað um fólk í öðrum greinum.

Auk þeirra eru tvö eldisfyrirtæki með regnbogasilung, Hábrún og ÍS 47. Þar eru samtals 15 starfsmenn og aðeinn einn erlendur. Hann hefur starfað við eldið í 3 ár ásamt því að leika handknattleik.

DEILA