Fuglaflensa í haferni og æðarfugli

Haförn. Mynd: Sindri Skúlason.

Í sýnum sem tekin voru úr haferni sem fannst dauður á skeri úti fyrir Barðaströnd um miðjan september fundust skæðar fuglaflensuveirur af stofni sem hefur ekki greinst hér á landi áður og er ekki algengur, HPAI H5N5. Sýnin voru rannsökuð á Tilraunastöð HÍ að Keldum.

Í gær bárust svo Matvælastofnun upplýsingar frá Keldum um að æðarfugl sem fannst dauður á Ólafsfirði fyrir skömmu hafi verið smitaður af sama stofni fuglaflensuveiru.

Þessar greiningar undirstrika mikilvægi þess að tryggja góðar sóttvarnir í umgengni við alifugla og aðra fugla í haldi.

Matvælastofnun minnir á að tilkynningar frá almenningi um fund á veikum og dauðum villtum fuglum eru lykilatriði í eftirliti með tilvist og útbreiðslu fuglaflensu .

Matvælastofnun biður almenning um að halda áfram að tilkynna um fund á veikum og dauðum fuglum. Tilkynningarnar eru mjög mikilvægur liður í vöktun á tilvist og útbreiðslu smits.

DEILA