Fjórðungsþing: fagnar drögum að nýrri stefnumótun lagareldis

Frá fjórðungsþinginu í Bolungavík í haust. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fjórðungsþing Vestfirðinga, sem haldið var í Bolungavík um síðustu helgi, ályktaði um drög að stefnumotun fyrir lagareldi, sem er samheiti yfir fiskeldi, þörungaeldi og skeleldi. Þá fagnaði þingið einnig því að strandsvæðaskipulag hefði verið samþykkt fyrir Vestfirði.

Jafnframt skoraði Fjórðungsþing Vestfirðinga á stjórnvöld að auka fjármagn til rannsókna á áhrifum fiskeldis á lífríkið og til miðlunar fræðslu um umhverfisleg, efnahagsleg og samfélagsleg áhrif sjókvíaeldis á Íslandi. Opinber störf sem tengjast þjónustu og eftirliti með sjókvíaeldi skuli vera þar sem starfsemin fer fram.

Í ályktuninni segir:

„Á undanförnum árum hefur sjókvíaeldi byggst upp á Vestfjörðum og með þeirri uppbyggingu hefur orðið algjör viðsnúningur í atvinnulífi og byggðaþróun á Vestfjörðum. Byggðir sem áður töldust vera deyjandi samfélög eru nú farnar að blómstra og bjartari framtíð blasir við íbúum Vestfjarða. Mikilvægt er að sjókvíaeldið fái að þróast og að þekking á eldinu verði bætt með auknum rannsóknum og fræðslu um áhrifin af þessari nýju atvinnugrein sem er að skjóta rótum á Íslandi. Samfélög á Vestfjörðum eiga mikið undir að atvinnugreinin vaxi. Skýrsla Boston Consulting Group staðfestir tækifæri og mögulegan vöxt í framtíðinni. Til að það geti orðið þá þarf ramminn og umgjörð greinarinnar að vera skýr.
Markmið stefnumótunarinnar er að framtíðaruppbygging í lagareldi byggi á skýrum viðmiðum sjálfbærrar nýtingar, vistkerfisnálgunar og varúðar. Áhersla á eftirlit, vöktun og rannsóknir með framleiðslunni standist ítrustu kröfur til að koma í veg fyrir að greinin hafi neikvæð áhrif á umhverfið í framtíðinni.
Markmið strandsvæðaskipulags í byggðamálum eru meðal annars að nýting og vernd strandsvæðis Vestfjarða styðji aðliggjandi byggðarlög með tækifærum til fjölbreyttrar starfsemi og nýsköpunar og styðji lífsgæði íbúa.“

aðgerðarleysi stjórnvalda hefur neikvæð áhrif á Vestfirði

Þá segir í niðurlagi ályktunarinnar: „Þessi markmið eru í takt við vilja sveitarstjórnarfulltrúa á Vestfjörðum sem hafa kallað eftir aðgerðum af hálfu stjórnvalda um árabil. 68. Fjórðungsþing Vestfirðinga telur að aðgerðaleysi Alþingis, ríkisstjórna, ráðuneyta og stofnana í málefnum fiskeldis hafi gert að verkum að
uppbygging eftirlits og rannsókna í nærumhverfi atvinnugreinarinnar sé ábótavant og að skýr stefna hafi ekki verið mótuð fyrir atvinnugreinina fyrr en nú. Afleiðingar aðgerðaleysis hafa nú mjög neikvæð áhrif á umhverfi og ímynd Vestfjarða.“

DEILA