Bolungavík: úthlutað 6 lóðum – 14 umsóknir í lóðarútdrátt

Teikning af fyrirhugaða Lundahverfi í Bolungavík.

Bæjarstjórn Bolungavíkur staðfesti í gær úthlutun á sex lóðum í hinu nýja Lundahverfi. Tíu umsækjendur verða boðaðir í lóðarútdrátt þar sem fleiri en ein umsókn barst um nokkrar lóðir. Hver umsækjandi sótti um lóð og aðra til vara. Alls voru 22 lóðir auglýstar og bárust 20 umsóknir um 16 þeirra ýmist sem aðalumsókn eða til vara.

Meðal umsækjenda voru þríburar og sótti hver þeirra um eina lóð svo og knattspyrnumaðurinn Andri Rúnar Bjarnason.

Bæjarstjórn Bolungarvíkur bókaði að hún „fagnar þeim fjölda umsókna um lóðir í Lundahverfi sem afgreiddar voru á Umhverfismálaráðsfundi þann 5.október sl. Á þeim fundi voru teknar til afgreiðslu tuttugu umsóknir um fjölbreyttar lóðir í hinu nýja hverfi í Bolungarvík.

Hinn mikli fjöldi umsókna sýnir þann áhuga og vöxt sem fyrir höndum er í Bolungarvík og gefur góð fyrirheit um að sveitarfélagið sé áfram að styrkjast og eflast til framtíðar.

Bæjarstjórn óskar nýjum lóðarhöfum til hamingju með áfangann og velfarnaðar í þeim verkefnum sem framundan eru.“

DEILA