Lotterí í Kómedíuleikhúsinu

Það verður aldeilis leikhúslotterí í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal í október og allir geta tekið þátt í því. Tilefnið til samkomunnar er ærið því í ár er aldarafmæli Jónasar Árnasonar leikskálds og textasmiðs. Það eru engar ýkjur að segja að Jónas hafi ríkt sem kóngur yfir leiksviðum og fjöldasamkomum í ártatugi og gjörir reyndar enn þegar fólk kemur saman og brestur í söng, Jónasarstæl.

Afmælisdagskrá Kómedíuleikhússins er sótt í einn af fjölmörgum smellum Jónasar eða Lífið er lotterí. Það eru þrjú á sviði sem munu skemmta. Einsog glöggir lesendur átta sig á þá er hér viðeigandi tilvísun í söngtríóið ástsæla Þrjú á palli sem einmitt fluttu fjölda mörg verk Jónasar og gáfu út á vinsælum hljómplötum á öldinni sem leið. Þrjú á sviði eru þau Dagný Hermannsdóttir, söngkona, Elfar Logi Hannesson, leikari, og Guðmundur Hjaltason, tónlistarmaður. Í leik- og söngdagskránni Lífið er lotterí munu Þrjú á sviði segja frá Jónasi sem og flytja úrval söngtexta hans sem margir hverjir eru ortir við lög hans kæra bróður Jóns Múla. Alltof langt mál væri að telja upp allar perlur Jónasar sem fluttar verða á Lífið er lotterí. Þó skulu hér nefndar Jónasarperlur á borð við Langi Mangi, Við heimtum aukavinnu, Einu sinni á ágústkvöldi, Við höldum til hafs á ný, Augun þín blá, Efemía og Þá stundi Mundi. Já, það er aldrei nóg af Jónasar perlum og nokk ljóst að allir munu syngja með í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal.

Lífið er lotterí verður frumsýnt í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal föstudaginn 6. október kl.20.00. Önnur sýning verður daginn eftir og næstu tvær helgina þar á eftir. Miðasölusími Kómedíuleikhússins er 891 7025. Einnig er hægt að kaupa miða á netinu á Lífið er lotter á midix.is

Elfar Logi

DEILA