Lengjudeildin: Vestri í umspil

Karlalið Vestra tryggði sér sæti í umspili Lengjudeildar um eitt sæti í Bestu deildinni með öruggum 5:0 sigri á Ægi frá Þorlákshöfn á laugardaginn. Leikurinn fór fram innanhúss í Kórnum í Kópavoginum vegna veðurs. Strax í upphafi var ljóst að hverju stefndi og eftir 9 mínútur var Vestri búinn að skora þrjú mörk og úrslitin ljós. Ægir var fyrir leikinn fallið úr deildinni og mun spila í 2. deild næsta sumar. Benedikt Warén og Ibrahim Balde áttu báðir mjög góðan leik og voru á meðal markaskorara.

Tvær umferðir eru eftir af Lengjudeildinni en þegar er ljós eftir úrslit laugardagsins hvaða lið verða í fimm efstu sætunum. Efsta liðið fer beint upp í Bestudeildina og liðin í 2. – 5. sæti spila um eitt sæti.

Eins og staðan er nú er ÍA efst og Afturelding í Mosfellsbæ er í 2. sæti og gæti náð efsta sætinu. Önnur lið eiga ekki lengur möguleika á efsta sætinu. Fjölnir í Grafarvogi , Vestri og Leiknir Breiðholti verða í 3. – 5. sæti deildarinnar.

Liðin í 2. og 5. sæti munu spila tveggja leika einvígi í september svo og liðin í 3. og 4. sæti. Sigurvegarnir úr þessum viðureignum munu svo leika úrslitaleik um sæti í Bestu deildinni.

Eftir 20. umferðina er Vestri í 4. sæti og myndi leika við Fjölni sem er í 3. sæti ef þetta yrði lokastaðan.

DEILA