Raforkumál eru atvinnu- og byggðamál

Tillögur starfshóps um eflingu samfélagsins á Vestfjörðum eru 15 talsins. Þær snúa að orkuafhendingu, orkuframleiðslu, grænum hvötum og fleiri málum sem eru framfaramál fyrir Vestfirði. Ráðherra málaflokksins tók formlega við tillögunum og sagðist myndu vinna að þeim enda væru þær lagðar fram af Vestfirðingum um lausnir í raforkumálum á Vestfjörðum. Þarna talar ráðherra skýrt um mál sem hvíla þungt á Vestfirðingum sem þekkja rafmagnsleysi svo klukkutímum og jafnvel dögum skiptir sem og þau vandamál sem tengjast atvinnustarfsemi sem getur ekki þrifist vegna raforkuskorts.

Ráðherra með heildarsýn
Kosturinn við Guðlaug Þór í hans vandasama ráðherrastarfi er sá að hann hefur heildarsýn á verkefnið. Það snýst um að varðveita viðkvæma náttúru, verja suma staði alfarið og viðhalda þeirri hreinu ímynd sem Ísland hefur. Það snýst líka um að við sem þetta harðbýla en gjöfula land byggjum getum haldið áfram að búa við góð lífskjör. Til að svo megi verða þurfum við að skapa verðmæti. Í virkjun okkar náttúruafla er gríðarleg verðmætasköpun fólgin. Í fyrrgreindri skýrslu fyrir Vestfirði er einmitt slík mynd dregin upp að í stað þess að keyra á díselvélum til að framleiða rafmagn eigum við gríðarleg tækifæri í að virkja hið hreina vatnsafl. Draga þar með úr mengun, nýta innlenda hreina orkugjafa og gera Vestfirði sjálfstæðari í sinni orkuöflun. Þetta verður að gera og það sér ráðherra. Ég fullyrði að hann hefur óskoraðan stuðning Vestfirðinga í það verkefni og reyndar landsmanna allra með fáum undantekningum þó þær geti verið háværar.

Viljandi villuljós
Þá víkjum við að hinum háværu undantekningum en Þorgerður M. Þorbjarnardóttir formaður Landverndar skrifar grein í Morgunblaðið 21. júlí sl. þar sem hún fullyrðir að ráðherra sé á villigötum hvað varðar raforkuskort á Vestfjörðum. Ekki er gott að átta sig á hvers vegna formaður Landverndar sér sig knúna til að skrifa slíka grein því ekki er hún bara að draga úr mikilvægi þess sem ráðherra sagði um tillögurnar 15 heldur er um leið gert lítið úr tillögunum og mikilvægi þess að tekið verði á málum. Stóra atriðið er að það er verið að brenna milljónum lítra af olíu á Vestfjörðum og það er staðreynd. Orkubú Vestfjarða brenndi 2,1 milljónum lítra til að kynda fjarvarmaveitur árið 2022. Það er eins og að fylla á díselbíl 40.000 sinnum. Hægt er að koma í veg fyrir slíka sóun og mengun sem henni fylgir og er með ólíkindum að sjá formann Landverndar reyna að bregða upp villuljósi til að koma í veg fyrir slíkt. Því varla er annar tilgangur með greininni en að gera lítið úr mikilvægi þess að virkja á Vestfjörðum.

Rafbílar hlaðnir með dísel
Eins og kom fram hjá ráðherra eru dæmi um að rafbílar á Vestfjörðum séu í raun hlaðnir með díselvélum. Þá er umhverfissinnaður rafbílaeigandi að spara kannski 40 lítra af olíu og stingur í samband við hleðslustöð með góðri samvisku. Við það fer varaafl af stað vegna yfirálags á lélegu rafkerfi Vestfjarða. Slíkt varaafl eyðir kannski tugum lítrum af díselolíu á klukkustund eða mörgum sinnum meira en rafbílaeigandinn telur sig vera að spara. Þetta er ótrúleg vitleysa og varla getur Landvernd með aðkomu sinni verið að verja slíkt þegar við stefnum að kolefnisjöfnun – eða hvað?

Ráðherra er á réttri leið
Eins og sjá má er skýrslan með 15 tillögum verk heimamanna sem þekkja aðstæður út í hörgul. Þar er leitað leiða til að fara bil beggja, þ.e. náttúruverndar en um leið nýtingar því raforkumál eru atvinnu- og byggðamál. Með viðbrögðum ráðherra er augljóst að hann er ekki á neinum villigötum þó formaður Landverndar haldi því fram.

Halldór Halldórsson, arvinnurekandi.

DEILA