Lengjudeildin: Vestri fær Fjölni í heimsókn í dag

Karlalið Vestra í Lengjudeildinni fær Fjölni í heimsókn á Olísvöllinn á Ísafirði í dag og hefst leikurinn kl 13. Bæði liðin eru sem stendur í umspilssæti um laust sæti í Bestu deildinni sem fram fer að lokinni deildakeppninni. Liðin í 2. – 5 sæti munu keppa um eitt sæti. Fjölnir er í 3. sæti og Vestri í því fjórða. Hörð keppni er um sæti í umspilinu og geta enn 10 lið af 12 liðum blandað sér í þá keppni. Aðeins 7 stig eru frá Vestra í 4. sætinu niður í 11. sæti og fallsæti í næstu deild.

Með sigri í dag á Fjölni myndi Vestri styrkja stöðu sína um sæti í umspilinu og vera með 5 stiga forskot á liðið í 6. sæti. En þótt leikurinn tapaðist yrði Vestri enn í umspilssæti. Að lokum leiknum eru enn eftir þrjár umferðir af deildinni.

Fjórir leikir fóru fram í Lengjudeildinni í gærkvöldi. Bæði Grótta og Þór Akureyri töpuðu stigum sem kemur sér vel fyrir Vestra, en Grindavík vann stórsigur á Ægi frá Þorlákshöfn og sendi þá niður í næstu deild. Grindavík er í 6. sætinu aðeins tveimur stigum á eftir Vestra.

DEILA