Act alone: um 2500 sýningargestir

Leiklistar- og listahátíðin Act alone fór fram á Suðureyri um liðna helgi. Óhætt er að segja að hátíðin hafi yljað vel á alla vegu segir í tilkynningu frá hátíðinni. „Bæði var veðrið á Suðureyri alveg einstakt, einsog það er nú nánast alla daga, og svo var aðsókn á hátíðina einstaklega góð en nærri 2500 sýningargestir yljuðu sæti leikhússins. Fjölbreytileikinn var í dagskránni þar sem boðið var uppá einleiki, tónleika, ritlist, dans og myndlist. Eigi er hægt að taka einhverja viðburði sérlega fram því allir voru þeir einstakir og einstaklega vel lukkaðir. Act alone var ekki síður alþjóðleg því listamenn ársins komu frá Argentínu, Króatíu, Íslandi, Lettlandi og Tékklandi.“

Að vanda var ókeypis á alla viðburði hátíðarinnar og var hægt að fá ókeypis far með langferðabifreið hátíðarinnar sem gekk daglega millum Ísafjarðar og Suðureyrar meðan á Acti stóð.

Þetta er í 19. sinn sem Act alone er haldin, sem gerir hátíðina að langelstu leiklistarhátíð á Íslandi. Actið var meira að segja haldið í heimsfaraldri því þá var brugðið á það ráð að halda Litla Act alone í stað þess hefðbundna sökum fjöldatakmarkanna í samfélaginu á þeim tíma. En nú er sem betur fer ástandið einstaklega einstakt og hægt að halda Actið árlega einsog í gamla daga á Suðureyri.

Act alone verður því haldin í 20. sinn á næsta ári og því verður vitanlega fagnað með einstökum hætti. Act alone 2024 fer fram dagana 8. – 10. ágúst á Suðureyri og undirbúningur er þegar hafin. Öll eru velkomin að senda inn hugmyndir að einstökum dagskráliðum á netfang hátíðarinnar komedia@komedia.is

DEILA