Vesturbyggð gerir alvarlegar athugasemdir við forgangsröðun jarðgangakosta

Vesturbyggð segir í ítarlegri umsögn sveitarfélagsins við drög að samgönguáætlun áranna 2024-2038 að Vesturbyggð fagni því að í drögum að samgönguáætlun 2024-2038 sé mælt fyrir um jarðgangaáætlun og þar sé einn af jarðgangakostum áætlunarinnar, jarðgöngu undir Mikladal og Hálfdán. Vesturbyggð segir mikilvægt að jarðgöng verði lögð undir Mikladal og Hálfdán, enda myndu göngin leysa af tvo erfiða fjallvegi innan búsetu-, þjónustu- og atvinnusvæðis sunnanverða Vestfjarða.

Vesturbyggð gerir þó alvarlega athugasemdir við forgangsröðun jarðgangakosta og krefst þess að umfjöllun Vegagerðarinnar um jarðgöng undir Mikladal og Hálfdán verði lagfærð, enda vantar að tilgreina þar mikilvægar forsendur og staðreyndir sem m.a. eru settar fram um aðra jarðgangakosti og koma fram í forgangsröðun Vegagerðarinnar, en er með öllu sleppt í umfjöllun um jarðgöng undir Mikladal og Hálfdán.

Síðan eru tilgreindar einar ellefu athugasemdir sem Vesturbyggð gerir við röðun Vegagerðarinnar . Vísað er í jarðgangaáætlun Fjórðungssambands Vestfirðinga þar sem mikilvægustu kostirnir voru Súðarvíkurgöng og jarðgöng undir Mikladal og Hálfdán og aðrir kostir á Vestfjörðum síðar.

„Skýtur það einnig skökku við að jarðgangakostum á sunnanverðum Vestfjörðum er raðað á eftir Súðavíkurgöngum og breikkun Breiðadals- og Botnsheiðaganga, þrátt fyrir þá staðreynd að á norðanverðum Vestfjörðum sé í dag að finna fjölmörg jarðgöng og þar af leiðandi láglendisvegi milli byggðalaga s.s. Bolungarvíkurgöng, Dýrafjarðagöng
og göng undir Breiðadals- og Botnsheiði.“

Vantar upplýsingar um slysatíðni og lokun

Þá vanti í umfjöllun Vegagerðarinnar skýrslu Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri um jarðgöng á áætlun, sem unnin var fyrir Vegagerðina, þar sem sérstaklega er fjallað um byggðaþróun, umferðaröryggi eða tenginu svæðanna
með jarðgöngum undir Mikladal og Hálfdán. Einnig vanti upplýsingar um slysatíðni en „veturinn 2021/2022 urðu t.d. fjölmargar bílveltur á vegkaflanum, m.a. flutningabílar og snjóruðningstæki, án þess þó að alvarleg slys yrðu á fólki, en
eignartjón var mikið. Vekur það furðu að svo mikilvægar tölulegar upplýsingar komi ekki fram í umfjöllun um jarðgangakosti undir Mikladal og Hálfdán“ segr í umsögn Vesturbyggðar. Loks er vikið að upplýsingum um lokun veganna. og vakin athygli á því „að meðaltal lokunarklukkustunda á Mikladal og Hálfdán eru jafnmargar eða jafnvel fleiri en vegna jarðgangakosta sem Vegagerðin telur að brýnt sé að fara í, svo sem Súðavíkurhlíð og Ólafsfjarðarveg. Lokunarklukkustundir voru að meðaltali 3,6 sólahringar á Mikladal en 4,5 sólahringar á Hálfdán. Hafa þessar
lokanir mikil áhrif búsetuskilyrði á sunnanverðum Vestfjörðum og geta í vissum tilvikum ógnað öryggi íbúa þegar viðbragðsaðilar komast ekki milli svæða, en Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og lögregla eru staðsett á Patreksfirði.“

Jarðgangaáætlunin verði lagfærð

Vesturbyggð óskar eftir því að innviðaráðuneytið beini því til Vegagerðarinnar að lagfæra umfjöllun um jarðgöng undir Mikladal og Hálfdán í umfjöllun um jarðgangaverkefni. Í umfjölunni verði tilgreindar réttar og mikilvægar forsendur og staðreyndir, áður en dregnar eru ályktanir um mikilvægi jarðganga undir Mikladal og Hálfdán og áður en lokið verði við
að forgangsraða jarðgangakostum og þeir ákveðnir í samgönguáætlun 2024-2038.

DEILA