Vesturbyggð: frístundabyggð í Vesturbotni

Skipulags- og umhverfisráð Vesturbyggðar hefur afgreitt til bæjarstjórnar tillögu að deiliskipulagi frístundabyggðar í Vesturbotni. Tillagan nær yfir 24 frístundalóðir og golfvöll.

Skipulagssvæðið er um 131 ha að stærð. Í lýsingu segir að helsta markmið með gerð deiliskipulagsins sé að bjóða upp á lóðir í fallegu umhverfi þar sem áhugasamir einstaklingar eða félagasamtök geta m.a. unnið að uppgræðslu og landbótum. Ennfremur verði lögð áhersla á að mynda heildstætt frístundahúsahverfi, sem fellur sem best að umhverfinu. Öll mannvirki, sumarbústaðir, lóðamörk og bílastæði verði eins lítið áberandi og frekast er kostur.

Gert er ráð fyrir að golfvöllurinn geti stækkað upp í 18 holu golfvöll og að heildarstærð vallarins eftir stækkun verður um 37 ha.

Gert verður ráð fyrir landgræðslu- á skógræktarsvæðum á svæði sem eru utan lóða fyrir frístundabyggð. Við tegundaval verði tekið mið af því náttúrulega birkikjarrlendi sem fyrir er.

Sveitarstjórn hefur hug á að skilgreina þann hluta jarðarinnar sem ekki er ætlaður fyrir golfvöll og frístundabyggð sem fólkvang með það í huga að friðlýsa svæðið skv. náttúruverndarlögum. Í aðalskipulagi Vesturbyggðar 2018-2038 er það svæði skilgreint sem hverfisverndarsvæði vegna fjölbreytts landslags og áhugverðs útivistarsvæðis.

Uppdráttur af svæðinu.

DEILA