Vestfirðir: laxveiði vertíðin hafin

Frá Laugardalsá. Mynd:svfr.is

Laugardalsáin opnaði 21. júní sl. og þá var enginn lax genginn í ána og hún vatnslítil. Í fréttum frá Stangveiðifélagi Reykjavíkur, sem er með ána á leigu kemur fram að ekki hafi vantað urriðann en hann var samt heldur smærri en undanfarin ár. Fyrsta hollið varð heldur ekki var við neina bleikju. Það var svo ekkert veitt í ánni frá síðdegi þess 23. júní fram til síðdegis 29. júní. Nýjustu fréttir eru frá hollinu sem voru að klára á hádegi í þann 7. júlí. Einn í hollinu fékk tvo laxa, 80 cm. og 61. cm, á morgunvaktinni daginn áður, 6. júlí. Þeir veiddust báðir á lítinn Sunray í Dagmálafljóti. 

Stangveiðifélag Reykjavíkur er einnig með Gufudalsá í Reykhólahreppi á leigu. Við höfum ekki fengið neinar fréttir úr Gufudalsánni enn sem komið er en veiðar hófust 2. júlí sl. Tvö holl hafa nú lokið veiðum og það þriðja hóf veiðar seinni partinn í gær og klárar 9. júlí. 

Veiðar hófust í Langadalsá síðasta miðvikudag og Bæjarins besta hefur ekki fengið fréttir af veiði. Það er félagið Starir ehf sem er með ána og Hvannadalsá á leigu.

DEILA