Þverun Gufu- og Djúpafjarða hefjist í haust

Ný mynd af brúnni yfir Þorskafjörð. Myndir: Vegagerðin.

Fram kemur í skriflegu svari Innviðaráðherra við fyrirspurn Teits Björns Einarssonar, alþm. um framkvæmdir í Gufudalssveit að áætlað er að framkvæmdir við þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar verði boðnar út í tveimur til þremur útboðsáföngum. Útboð fyrsta áfanga fer fram haustið 2023 og útboð síðari áfanga til að ljúka verkefninu haustið 2024. Gangi þetta eftir gætu framkvæmdir hafist síðari hluta árs 2023 segir í svarinu.

Framkvæmdir við Vestfjarðaveg um Gufudalssveit hófust haustið 2020 með endurbótum á Vestfjarðavegi frá Gufudalsá að Skálanesi og lauk þeim árið 2021. Árið 2021 voru boðnir út tveir verkáfangar, annars vegar þverun Þorskafjarðar frá Kinnarstöðum að Þórisstöðum, og hins vegar Djúpadalsvegur. Verklok við þverun Þorskafjarðar eru áætluð í júní 2024 samkvæmt verksamningi.
Í upphafi árs 2022 var boðinn út 10,4 km kafli frá Þórisstöðum að Hallsteinsnesi og eru áætluð verklok í október 2023.

Þá kemur fram í svari Innviðaráðherrra um stöðu framkvæmda í samgönguáætlun við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni, alþm. að gildandi samgönguáætlun geri ráð fyrir að vegaframkvæmdum í Gufudalssvei ljúki á árinu 2025 en í raun verði það 2026.

Fjárveiting til verksins er 7.200 m.kr. á árunum 2020-2024 og hefur 5.245 m.kr. verið ráðstafað.

Gangi þetta eftir mun nýi vegurinn um Teigsskóg verða ónotaður í 2- 3 ár.

DEILA