Miklar útflutingstekjur fyrirtækja á Vestfjörðum kalla á hraðari samgöngubætur

Guðmundur Fertram Sigurjónsson í viðtali á Ísafirði.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis, kallar eftir breyttri forgangsröðun stjórnvalda í samgöngumálum. Hann furðar sig á áhugaleysi yfirvalda gagnvart Vestfjörðum og segir ótækt að einfaldar lagfæringar á flugvellinum á Þingeyri sitji á hakanum og völlurinn sé ónothæfur fyrir vikið. Þá gagnrýnir hann að ekki fáist fjármagn til að framkvæma staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum.

Guðmundur Fertram fór mikinn í útvarpsviðtali við Sprengisand á Bylgjunni á sunnudagsmorgun, þar sem m.a. fjallað var um starfsemi Kerecis á Ísafirði. Guðmundur sagði gott að reka fyrirtæki í bænum, þar sem hæft fólk fengist til starfa sem legði svo sannarlega sitt af mörkum til þjóðarbúsins. Í ljósi mikils uppgangs á Vestfjörðum á undanförnum árum, t.d. vegna fiskeldis, starfsemi Kerecis og annarra, væri hins vegar ótrúlegt hve samgönguáætlun ríkisins tæki lítið mið af svæðinu.

“Hún er bara alls ekki nógu góð og það þarf að gera miklu betur. Það þarf að tengja Vestfirði með láglendisveg við Reykjavíkursvæðið og kostnaður við það er ekkert rosalega mikill, eða um 50 milljarðar króna. Tekjur laxeldisfyrirtækja og Kerecis verða innan fárra ára um 150 milljarðar á ári og til samanburðar þá kostar um einn þriðja af því að tryggja mannsæmandi samgöngur hingað vestur,” segir hann.

Honum finnst galið að þessir hlutir séu ekki skoðaðir í samhengi, á sama tíma og 250 milljarðar af opinberu fé séu eyrnamerktir borgarlínu. Hugmyndir um hana byggi á tækni gærdagsins, á meðan ekki sé ráðist í framkvæmdir svo fólk komist allt árið um kring vestur á firði.

Guðmundur sagðist afskaplega ánægður með aðgerðir stjórnvalda í nýsköpunarmálum og líklega sé hvergi væri betra að reka nýsköpunarfyrirtæki en hér. Málum sé þó öðruvísi háttað í samgöngumálum þar sem vegið er að flugsamgöngum út á land. “Ég skil bara ekki baráttuna gegn Reykjavíkurflugvelli og áhuga nokkurra stjórnmálamanna á því að fjarlægja þessa samgönguæð frá landsbyggðinni,” segir Guðmundur. “Án Reykjavíkurflugvallar verður erfiðara fyrir gamla fólkið að komast til læknis, almenning að komast ferða sinna og erfiðara fyrir fólk í viðskiptum að að reka fyrirtæki á landsbyggðinni.”

Guðmundur Fertram Sigurjónsson og Ólafur Ragnar Grímsson á fundi Kerecis í Alþýðuhúsinu.

DEILA