Messa í Furufirði

Laugardaginn 15. júlí kl.18:00 verður hringt til messu í bænhúsinu í Furufirði.

Prestur verður Sr. Magnús Erlingsson sóknarprestur á Ísafirði.

Kirkjukaffi verður að lokinni messu í sumarhúsi að staðnum.

Ef fólk hefur áhuga á að gista í tjaldi eina nótt á Hornströndum er þetta tilvalin helgi til þess. Hafa þarf með sér viðlegubúnað því ekki er gistiþjónusta á staðnum. Ferðir verða á laugardag  frá Ísafirði með Sjóferðum  kl.9:00 til Hrafnfjarðar og á sunnudag  er svo bátur aftur í Hrafnfirði til Ísafjarðar kl.17:00. Á milli Hrafnfjarðar og Furufjarðar er lágur og auðveldur fjallvegur, Skorarheiði ( u.þ.b. þriggja tíma gangur). Ef fólk hefur áhuga fyrir þessari ferð þarf að hafa samband við Sjóferðir á Ísafirði til að panta ferðina.

Líklega hefur verið bænhús í Furufirði frá fornu fari og því þjónað af prestinum á Stað í Grunnavík.  Furufjörður var í eyði snemma á 18. öld þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín settu saman Jarðabók sína en í bókinni er getið um að meðan jörðin var í byggð hafi verið embættað tvisvar á ári og menn gengið til altaris.  Jörðin byggðist aftur en prestsþjónusta komst ekki á, heldur þurftu íbúar nú að sækja þá þjónustu til Grunnavíkur. 

Það var ekki fyrr en undir lok 19. aldar sem tók að hilla undir að bænhús yrði reist að nýju í Furufirði. Árið 1894 hét viðlagasjóður Sparisjóðs Ísafjarðar því að leggja 500 kr. til bænhúss í Furufirði að því tilskyldu að húsið yrði komið upp fyrir aldarmótin. 

Lokið var við að reisa bænhúsið sumarið 1899 og hafði Benedikt Hermannsson bóndi í Reykjarfirði yfirumsjón með verkinu.  Benedikt gaf og hjó til úr rekaviði grindina í húsið en Norðmenn sem ráku hvalveiðistöð á Meleyri í Veiðileysufirði gáfu panelklæðningu í húsið.

Hjónin í Reykjarfirði gáfu klukku til bænhússins og smíðaði Benedikt ramböld og kom henni fyrir.

Bænhúsið í Furufirði var vígt þann 2. júní 1902.  Skyldi því þjónað frá Stað í Grunnavík og átti prestur að flytja þar fjórar messur að sumri en tvær að vetri.  Notendur hússins áttu hins vegar að annast viðhald þess og sjá til þess að þar væru ávallt nauðsynleg áhöld til guðsþjónustu.  Bændur á austurströndum greiddu til bænhússins og lítilsháttar kom af áheitum frá sveitungum. Þó hefur verið erfitt að láta enda ná saman, alla vega þegar sinna þurfti viðhaldi.

Erfiðleikar við að koma líkum til greftrunar voru ein helstu rökin fyrir því að reisa bænhús í Furufirði. Kringum bænhúsið í Furufirði er lítill kirkjugarður lautóttur og hnjúskóttur. Hann er nú vaxinn grasi með blómstrandi sóleyjum og blágresi. Girðingin er fallin en stærð garðsins er mörkuð með hornstaurum. Flestir þeir sem létust í Grunnavíkursókn norðan Skorarheiðar á síðustu öld eru grafnir í kirkjugarðinum við bænhúsið.   Nokkrir krossar standa uppúr gróðrinum og má þar lesa nöfn þeirra sem þar hvíla. Vitað er um nöfn flestra sem þar liggja og fá leiði óþekkt. Síðast var jarðsett þar 1949.

Bænhúsið var líka notað til annarra kirkjuathafna, þar var skírt, fermt og gift. Síðustu fermingar og skírnir áður en byggðin fór i eyði voru 1947 og 1950. Furufjörður fór í eyði sumarið 1950  Síðasti sóknarprestur byggðar norðan Skorarheiðar var sr. Jónmundur Halldórsson á Stað í Grunnavík.

Eftir að byggð lagðist af og þar til fyrrum ábúendur og afkomendur þeirra fór að dvelja yfir sumartímann í Furufirði upp úr 1970 var ekkert gert fyrir bænhúsið og var það verulega farið að láta á sjá. Nú hefur staðið yfir viðgerð á því og er ætlunin að koma því í sem upprunalegast horf.

Um verkið sér Guðmundur Ketill Guðfinnsson frá Reykjarfirði, en langafi hans var Benedikt Hermannsson sem sá um smíði hússins á sínum tíma.

Síðan viðgerðir hófust í byrjun þessarar aldar hafa ekki verið opinberar athafnir í bænhúsinu en fyrrum sóknarbörn hafa notað það til athafna innan fjölskyldna sinna svo sem ferminga og brúðkaupa og fólk sem átt hefur leið um svæðið haft sínar helgi og bænastundir þar. Þeim fjölgar því ört sem eiga góðar minningar úr bænhúsinu í Furufirði og vonandi eiga margir fleiri eftir að njóta þess í framtíðinni.

 Nú er viðgerðum að mestu lokið og komin tími til að hefja helgihald að nýju.

Heimildir:

Ágúst Sigurðsson, 2000: „Sú langa bænhúsbið“. Heima er bezt, 1 tbl. 50. árg.

Guðrún Ása Grímsdóttir, 1989: Grunnvíkingabók I. Reykjavík, Grunnvíkingafélagið á Ísafirði.

Jón Arnórsson, 1899: „Hornstrandir og Hornstrendingar.“ Þjóðviljinn ungi. 8 árg. nr 20.

DEILA