Loft-Bí-Bí er vandinn

Það vantar húsnæði í Reykjavík, sérstaklega minni eignir, sem henta fólki, sem er að kaupa sínu fyrstu fasteign.  Skortur á húseignum veldur því að verð á húsnæði hækkar mun meira en laun fólks.  Og þegar húsnæði hækkar þá hækkar líka húsaleigan.  Þannig virkar markaðurinn.

Tvær lausnir virðast vera á þessum vanda.  Önnur lausnin er sú að byggja bara meira af húsnæði.  Úthluta fleiri lóðum til verktaka og bíða svo og sjá hvort þetta lagist ekki með tímanum.  En það er til önnur og fljótvirkari lausn, sem bæði New York og Lissbon og fleiri borgir hafa tekið upp og hún er sú að takmarka skammtímaleigu á húsnæði.  Skammtímaleiga á húsnæði eins og Loft-Bí-Bí gefur miklu meira í aðra hönd heldur en langtímaleiga á húsnæði.  Þess vegna hafa fjársterkir aðilar í aukunum mæli farið út í það að fjárfesta í húsnæði og leigja það út í skammtímaleigu.  Oft er hér um að ræða minni íbúðir, sem myndu annars koma inn á markaðinum og henta fyrstu kaupendum.

Loft-Bí-Bí var vissulega sniðug hugmynd þegar hún kom fram.  Þarna gat venjulegt fólk leigt út aukaherbergi eða íbúðina í kjallaranum á háannatíma ferðamanna og fengið svolítinn aur í vasann.  En vegna þess að ferðatíminn er ekki lengur bundinn við þrjá mánuði og fjárfestar hafa keypt margar íbúðir til að leigja út þá þýðir þetta að fjöldinn allur af litlum íbúðum er í skammtímaleigu, sem veldur því að minna er um að þessar íbúðir séu boðnar fram til sölu eða langtímaleigu.  Loft-Bí-Bí er vandinn.

Magnús Erlingsson.

DEILA