Lengjudeildin: Vestri upp í 6. sæti

Karlalið Vestra í Lengjudeildinn vann góðan sigur á Þór frá Akureyri á laugardaginn þegar liðin mættust á Olísvellinum á Ísafirði. Silas Songani gerði eina mark leiksins á 80. mínútu eftir skot á markið frá  Gustav Kjeldsen sem markvörður Þórsara varði og boltinn hrökk til Songani.

Davíð Smári Lamude þjálfari Vestra var ánægður með sigurinn í viðtali við fotbolti.net eftir leikinn, en sagði að liðið hafi ekki átt góðan leik en úrslitin fallið með Vestra.

Vestri fór með sigrinum upp í 6. sæti deildarinn og er með 16 stig eftir 12 leiki. Vestri á leik til góða og með jafntefli eða sigri í honum nær það 5. sætinu. Liðin sem verða í 2. – 5. sæti deildarinnar munu spila sérkeppni um eitt laust sæti í Bestu deildinni og Vestri hefur nú blandað sér af alvöru í þá keppni. Leiknar eru 22 umferðir. Afturelding frá Mosfellsbæ er langefst í deildinni með 35 stig, 9 stigum meira en næsta lið og stefnir hraðbyri upp í Bestu deildina.

Næsti leikur Vestra er á laugardaginn á Olísvellinum á Ísafirði gegn Grótti frá Seltjarnarnesi, sem er í 4. sæti deildarinnar með 19 stig.

DEILA