GEFUM ÍSLENSKUNEMUM SÉNS

Í ágústmánuði eru enn á ný íslenskunámskeið Háskólaseturs Vestfjarða. Sú staðreynd kemur varla á óvart. Ekki kemur heldur á óvart að við, í Háskólasetri Vestfjarða, biðjum ykkur íbúa Vestfjarða að taka vel á móti nemendum okkar með hægri og skýri íslensku og helst ekki að skipta yfir á ensku þegar nemendur (og raunar bara allir) reyna að tjá sig á málinu. Íslenska lærist best þannig að fólk þurfi að nota hana, finni og leiti leiða til að gera sig skiljanlegt.

Samtals verða fjögur námskeið, á mismunandi getustigum, í boði. Nemendafjöldinn verður í það heila um það bil 60 manns. 31. júlí, hefst byrjendanámskeið sem varir í þrjár vikur eða til 18. ágúst. 7. ágúst byrjar vikunámskeið fyrir langt komna. 14. ágúst er það svo byrjandahraðnámskeið sem varir í viku og 21. ágúst byrjar tveggja vikna framhaldsnámskeið fyrir frekar langt komna.

Inn í dagskrá námskeiðanna fléttast svo dagskrá átaksins GEFUM ÍSLENSKU SÉNS sem margir vonandi þekkja og er öllum velkomið að taka þátt viðburðum þess. Hluti þess að námskeiðin fléttast saman við átakið felst í að merkja nemendur, og raunar alla sem vilja, barmmerki átaksins sem sjá má á myndunum hér fyrir neðan. Nemendum er upplagt að bera merkið og benda á það vilji þeir spreyta sig á íslenskunni og þá einna helst þegar kemur að þjónustu í verslunum, veitingahúsum og stofnunum.

Það er vonandi að okkar íslenskuþyrsta fólk mæti þolinmæði og góðvilja Vestfirðinga. Við reyndar efumst ekkert um að sú verði raunin. Það fer enda það góða orðspor af svæðinu að þar sé gott að læra íslensku. Erum við viss um að það orðspor eigi við rök að styðjast og að íslensku sé almennt æ oftar gefin séns.

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson verkefnastjóri íslenskunámskeiða Háskólaseturs Vestfjarða

DEILA