Félagsdómur: Ísafjarðarbær tapar máli um ferðakostnað starfsmanns

Félagsdómur skar úr um deilu milli Ísafjarðarbæjar og Kjalar, starfsmannafélags f.h. starfsmanns Ísafjarðarbæjar á þingeyri um hvernig greiða skuli ferðakostnað. Starfsmaðurinn, sem var búsettur á Þingeyri en vann vaktavinnu á Ísafirði, vildi fá greiddan ferðakostnað samkvæmt ákvörðunum ferðakostnaðarnefndar ríkisins en Ísafjarðarbær vildi greiða samkvæmt kilómetragjaldi Sjúkratrygginga Íslands.

Kmgjald fyrir akstur á eigin bíl er 141 kr/km samkvæmt auglýsingu ferðakostnaðarnefndar en Sjúkratryggingar Íslands greiða aðeins 40,16 kr/km. Munar því liðlega 100 kr á hvern ekinn km.

Ísafjarðarbær hefur innleitt reglur um greiðslur um akstur á eigin bifreið í þágu vinnuveitanda og skuli þar taka mið af reglum ferðakostnaðarnefndar ríkisins, nema á lengri vegalengdum innan sveitarfélagsins en þá skuli miða við greiðslur Sjúkratrygginga Íslands. Taldi sveitarfélagið að það væri á forræði þess að ákvarða hvernig ferðakostnaðurinn væri ákveðinn.

Niðurstaða Félagsdóms er að viðurkennt er að með ferðakostnaði í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kjalar, stéttarfélags í almannaþjónustu sé átt við ferðakostnað samkvæmt ákvörðunum ferðakostnaðarnefndar ríkisins og var Samband ísl. sveitarfélaga sem var stefnt fyrir hönd Ísafjarðarbæjar dæmt til þess að greiða Kili 500 þúsund krónur í málskostnað.

DEILA