Bjartir dagar á Vestfjörðum

Þeir eru bjartir sumardagarnir á Vestfjörðum í byrjun júlí þetta árið. Sólin hátt á lofti, himininn blár, ekki skýhnoðri á himni og firðirnir okkar, fjöllin og fjörurnar skarta sínu fegursta.  Bæir og þorp iða af lífi, framkvæmdir eru í gangi út um allar trissur. Þetta eru góðir dagar.

Hver vikan af annarri ber með sér stórfréttir og sannarlega engin sumargúrka í gangi. Í síðustu viku var tilkynnt um sölu á öllu hlutafé í Kerecis á 175 milljarða íslenskra króna. Þetta eru svo stórar upphæðir að við eigum erfitt með að ná utan um þær en saga Kerecis er frábært dæmi um hvað er hægt að gera með hugviti, þekkingu og þor í farteskinu. Með þekkingu er hægt að byggja ofan á frumframleiðsluna sem við höfum lifað á um aldir. Salan á Kerecis sýnir það svo ekki verður um villst. En þessi árangur þýðir bara áfram gakk! Þessi árangur þýðir að það þarf að styðja enn betur við nýsköpun, þekkingaruppbyggingu og þróun á Vestfjörðum til að byggja upp fleiri öflug nýsköpunarfyrirtæki.

Gríðarlega mikil gjaldeyrssköpun á Vestfjörðum í fyrirtækjum eins og Kerecis, Baader (3XTechnology), sjávarútvegs- og fiskeldisfyrirtækjum á svæðinu hefur orðið vegna seiglu þeirra sem byggt hafa fyrirtækin upp, þrátt fyrir alltof lítinn stuðning hins opinbera. Þessi mikli árangur hefur náðst þrátt fyrir að svæðið hafi verið svelt í langan tíma um eðlilega uppbyggingu innviða sem skerðir samkeppnisstöðu fyrirtækja.  Það eru nefnilega innviðir eins og samgöngur, fjarskipti og raforka sem skapa eðlilega samkeppnisstöðu fyrir fyrirtæki til að vaxa í og þróast.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson stofnandi Kerecis er öflugur talsmaður þegar kemur að umræðu um samgöngur og innviði Vestfjarða og hann benti í viðtali á Sprengisandi réttilega á það hversu aftarlega á merinni Vestfirðir eru í samgöngumálum. Hér vantar bæði betri vegi, meiri vetrarþjónustu og jarðgöng til að fyrirtæki á þessu svæði geti orðið enn öflugri og skapað velsæld fyrir land og þjóð.

Nú munu einhverjir benda á að undanfarin ár hafa gríðarlegar framkvæmdir verið við Vestfirska vegi. Því verður svarað eins og áður – þessar framkvæmdir eru til að vinna upp áratuga vanrækslu. Enn vantar nokkuð á að svæðið sé samkeppnishæft við önnur landssvæði þegar kemur að samgöngum.  Og enn er verið að fresta verklokum í Gufudalssveit þar sem beðið hefur verið í áratugi eftir almennilegum vegum. Hinn langi aðdragandi að þessum verkefnum eða 10 til 15 ár og áætlanir sem þá voru settar fram um kostnað standast ekki í dag. Það eru mikil vonbrigði að ekki hefur tekist að mæta þessum kostnaðarbreytingum og að lengt er í framkvæmdatíma með frestun útboða. Nú mega sunnanverðir Vestfirðir enn bíða eftir boðlegum samgöngum sem er hreinlega óásættanlegt.

Í lok júní var kynnt skýrsla starfshóps umhverfis- orku og loftslagsráðherra um “Eflingu Vestfjarða” þar sem enn einu sinni er bent á hina alvarlegu stöðu sem uppi er í raforkumálum Vestfjarða. Vestfjarðastofa og Fjórðungssamband Vestfirðinga hafa síðustu ár mjög eindregið lýst áhyggjum af þessari stöðu, látið vinna gögn, staðreyndaskjöl, haldið málþing og unnið sviðsmyndavinnu um stöðu til framtíðar.  Stofnun Bláma og það frábæra starf sem nú er unnið af þeirra flotta fólki er enn ein aðgerðin til að vinna að uppbyggingu Vestfjarða á sviði orkumála og orkuskipta. Við erum ánægð með þá áherslu sem nú má greina í orðum ráðherra málaflokksins en betur má ef duga skal. Nú þarf aðgerðir!

Baráttan fyrir bættum innviðum tekur alltof mikinn tíma og orku. Á Vestfjörðum þarf nú sem aldrei fyrr að huga að íbúðabyggingum, uppbyggingu samfélaga og þjónustu við íbúa.  Alltof mikill tími forsvarsmanna sveitarfélaga hefur farið í að berjast við ráðuneyti og stofnanir hins opinbera.  Í alltof mörg ár hefur ekki verið til staðar almenn trú á framtíð byggðar á Vestfjörðum og litið hefur verið á fjármagn til uppbyggingar innviða á svæðinu nánast sem hreina sóun á almannafé. Árangur Kerecis, árangur öflugra fiskeldisfyrirtækja, árangur 3X Technology sem nú er Baader og innbyggð seigla hins almenna Vestfirðings sýnir svo ekki verður um villst að það er tímabært að svæðið fái réttlátan skerf af fjármagni til innviðauppbyggingar á næstu árum til að bæta upp þá áratugi sem það hefur verið sett aftast í röðina.

Ég ætla í anda frétta síðustu vikna að vera bjartsýn á betri tíð með blóm í haga, að uppbyggingin hefjist nú fyrir alvöru.

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir
Framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu

DEILA