Ársreikningur sveitarfélaga 2022: stóru sveitarfélögin rekin með halla

Ísafjarðarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman upplýsingar úr ársreikningum sveitarfélaganna fyrir 2022 þar sem fyrir liggja reikningar 61 sveitarfélags á landinu af 64. Niðurstaðan er að afkoma A-hluta sveitarfélaga árið 2022 var töluvert lakari en árið 2021. Rekstrarafgangur var neikvæður um 21,1 ma.kr., samanborið við neikvæðan rekstrarafgang  um 8,5 ma.kr. árið á undan. Í hlutfalli við tekjur var hallinn 4,6% af tekjum 2022, en 2,1% árið á undan. Reykjavíkurborg ein er með 15,6 milljarða króna halla af A hluta af þessum 21,1 milljarða króna halla á landsvísu. Hins vegar snýst afkoma borgarinnar við þegar tekin eru með þjónustutekjur æur B hluta stofnunum og að þeim meðtöldum er 6 milljarða króna afgangur af rekstrinum.

Segir í skýringum að aukin verðbólga og hækkun vaxta séu megin skýring á verri afkomu. Fjármagnsgjöld að frádregnum fjármagnstekjum hækkuðu milli ára um 11,7 milljarða.kr. En til samanburðar jókst hallinn um 12,6 milljarða.kr.

Á Vestfjörðum voru öll þrjú stærstu sveitarfélögin, Ísfjarðarbær, Vesturbyggð og Bolungavík gerð upp með halla af A hluta. Hallinn varð 210 milljónir króna í Ísafjarðarbæ, 119 milljónir kr. í Bolungavík og 93 m.kr. í Vesturbyggð. Áfram varð halli á Ísafirði og í Bolungavík en þó minni þegar tekin er saman öll starfsemi sveitarfélagsins, A og B hluta en hins vegar snerist afkoman í 88 m.kr. afgang í Vesturbyggð vegna hárra þjónustutekna. Þá varð mikill halli í Tálknafjarðarhreppi af rekstrinum. Í Reykhólahreppi og sveitarfélögunum þremur í Strandasýslu var árið gert upp með afgangi af rekstrinum. Tölur frá Súðavík lágu ekki fyrir þegar tölurnar voru teknar saman.

DEILA