Arnarlax: hagnaður 6,4 milljarðar króna

Björn Hembre forstjóri Arnarlax.

Rekstrartekjur Arnarlax urðu í fyrra um 23,6 milljarðar króna og hagnaður 6,4 milljarðar króna samkvæmt ársreikningi félagsins, sem gerir 27% af tekjum. Tekjur jukust um 74% frá 2021. Slátrað magn ársins varð 16.100 tonn og jókst um 40% milli ára. Tekjuskattur af hagnaði er 1,1 milljarður króna og auk þess greiddi félagið til ríkisins nærri 200 m.kr. í fiskeldisgjald.

Eignir félagsins voru um áramótin bókfærðar á 34,3 milljarða króna og eigið fé þar af nam 21,4 milljarði kr.

Lífmassinn er um áramótin metinn á um 11 milljarða króna.

Arnarlax er gert upp í evrum og eru fjárhæðir umreiknaðar í krónur á genginu 150 kr pr evru.

Fjöldi stöðugilda var 154,4 og jókst um 20 frá fyrra ári. Konur voru 26% af starfsmönnum.

Um 73% af tekjum félagsins kemur af sölu í Evrópu en Bandaríkjamarkaður skilar um 22% teknanna.

DEILA