Vesturbyggð: ferja meðan ekki eru komin göng í gegnum Klettháls

Vöruflutningabíll á Kletthálsi.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð segir aðspurð að sveitarfélagið leggi áherslu á að það séu virkar og öruggar ferjusiglingar yfir Breiðafjörðinn, sem þjónusta íbúa, ferðamenn og atvinnulíf á meðan ekki eru komin göng í gegnum Klettháls.

Bæjarins besta innti hana eftir viðbrögðum Vesturbyggðar til þeirrar afstöðu Vegagerðarinnar að vegna Breiðafjarðarferjunnar Baldur væru jarðgöng í gegnum Klettháls ekki mjög brýn. Vegagerðin raðar Kletthálsjarðgöngum neðarlega á lista yfir 10 næstu jarðgöng. Eru gögnin aðeins í 9. sæti á listanum.

Aðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri byggðamála hjá Vestfjarðastofu vísaði til umsagnar Fjórðungssambands Vestfirðinga um hvítbók um samgönguáætlun þegar spurst var fyrir um afstöðu Fjórðungssambandsins til jarðganga á Kletthálsi og nýrrar ferju yfir Breiðafjörð og áhrifa ferju á framgang jarðganga og vísað til þess sem fram kemur í greinargerð Vegagerðarinnar.

„Við erum núna að ræða við okkar umbjóðendur (stjórn og sveitarfélög) um efni í umsögn varðandi tillögu að samgönguáætlun og jarðgangaáætlun og fleiri skjöl sem tengjast samgönguáætlun.  Umsagnarfrestur í Samráðsgátt er til 31. júlí n.k., svo kemur áætlunin fyrir þingið í haust og þá er að sjá hvort hafi verið hreyft við einhverju.“

Aðalsteinn segir margt sem spilar inn í jarðgöng undir Klettháls, samspil, styttingu leiða, láglendisvegar, orkuskipta í þungaflutningum, samvinnu sveitarfélaga, málefni Breiðafjarðar o.fl, allt mál þar sem horft er til langrar framtíðar. „Að taka eina hlið málsins hér út úr og setja sem forsendu hlýtur að dæma sig sjálft í ljósi þessa samspils.“

Í umsögninni sem Aðalsteinn vísar til segir að setja eigi jarðgöng í forgang á önnur verkefni á Vestfjörðum til þess að mæta gerbreyttum þörfum og aðstæðum með uppbyggingu á fiskeldi og ferðaþjónustu og þangað til að þau verða gerð eigi að mæta hinum nýju aðstæðum með aukinni þjónustu og viðhaldi á viðkomandi vegum og lengja þjónustutíma.

„Jarðgöng um Klettháls voru ekki sett á forganglista af hálfu sveitarfélaga en þessi jarðgangakostur mun hinsvegar leysa af þann fjallveg sem hvað oftast ófær í dag á Vestfjörðum, vegna illviðra og ófærðar á stuttum kafla vegarins. Fyrirséð er aukin umferð um veginn þegar framkvæmdum um Dynjandisheiði verður lokið, en að óbreyttu mun sú framkvæmd þá nýtast mun verra en ella, ef óbreytt staða er með veg um Klettháls.“ segir í umsögn Fjórungssambandsins.

Bætt vetrarþjónusta gæti bætt ástandið, segir í umsögninni, „en þjónustutími á Kletthálsi er einungis 7,5 tímar í stað 11
til 12 tíma á sambærilegum fjallvegum í landinu. En miðað við reynslu af öðrum jarðgangaframkvæmdum á Vestfjörðum, í aukningu umferðar og nýjum tækifærum sem skapast í atvinnulífi þá er augljós að þörf fyrir veg á láglendi.“

DEILA