Vesturbyggð: fengu 73 m.kr. í styrki

Patreksfjörður um sjómannadagshelgina síðustu.. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Vesturbyggð fékk 73,1 m.kr. í fimm styrki frá opinberum aðilum til fjárfestinga á árinu. Fiskeldissjóður veitti sveitarfélaginu fjóra styrki. Verkefnið „Örveruhreinsun með geislatæki“ fékk 5.250 þús kr. styrk. „Vatneyrarbúð, þekkingar- og þróunarsetur á Patreksfirði fékk 8.480 þús kr. Til kaupa á slökkvibifreið á Bíldudal veitti Fiskeldissjóður 29.020 þús kr. styrk og loks fékk viðbygging við leikskólann Araklett á Patreksfirði styrk að fjárhæð 26.480 þús kr. Samtals eru styrkir Fiskeldissjóðs 69,2 m.kr.

Þá veitti Jöfnunarsjóður sveitarfélaga styrk að fjárhæð 3,9 m.kr. vegna aðgengismála á bæjarskrifstofu, en kostnaðurinn er 7,8 m.kr.

Bæjarráð Vesturbyggðar leggur til við bæjarstjórn að hækka fjárhæð vegna kaupa á slökkvibifreið um 6,6 milljónir vegna breytinga á gengi og lokafrágangs, setja 7,8 m.kr. í aðgengi að bæjarskrifstofunni, kaupa leiktæki fyrir 5,3 milljónir og hækka fjárfestingu hafnarsjóðs um 10 m.kr.

Samtals eru fjárfestingar hækkaðar um 29,7 m.kr. en á móti koma styrkir að fjárhæð 73,1 m.kr. svo niðurstaðan verður að fjárveiting til fjárfestingar lækkar um 43,4 m.kr.

DEILA