Vestri: sigur á Leikni Reykjavík

Í fyrri hálfleik átti Vestri skalla í þverslá marksins. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Karlalið Vestra í Lengjudeildinni vann mikilvægan sigur á Leikni frá Breiðholti í gærkvöldi. Leikið var á Olísvellinum á Torfnesi og lauk leiknum 1:0 með marki Vla­dimir Tufegdzic á 78. mínútu leiksins. Leiknir fékk vítaspyrnu í fyrri hálfleik en markvörkur Vestra Viktor Freyr Sigurðsson varði spyrnuna.

Vestri var betra liðið í fyrri hálfleik en Leiknismenn áttu hættuleg færi. Í síðari hálfleik lék Vestri undan sterkum vindi og hafði töluverða yfirburði. Úti á vellinum spilaði Vestri vel en gekk illa að skapa sér góð færi. Sóknin þyngdist þegar á leið og undir lok leiksins kom markið eftir góðan skalla Tufegdzic. Silas Songani slapp einn inn fyrir vörn Leiknis og gat aukið forystuna en Leiknismönnum tókst að bjarga á síðustu stundu.

Eftir sigurinn er Vestri kominn með 9 stig og er í 9. sæti deildarinnar. Leiknir er áfram í 11. sæti og fallsæti með 5 stig. Um næstu helgi fær Vestri botnlið Ægis frá Þorlákshöfn í heimsókn og myndi með sigri lyfta sér upp undir miðja deild.

Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði var á leiknum.

DEILA