Vegagerðin: ferjan Baldur þýðir að jarðgöng um Klettháls eru ekki mjög brýn

Í greinargerð Vegagerðarinnar um forgangsröðun jarðgangakosta segir að Klettháls verði eftir tilkomu nýs vegar um Gufudalssveit eini hluti Vestfjarðavegar um sunnanverða Vestfirði sem ekki verður láglendisvegur. Hálsinn er 330 metra hár og getur verið óveðursamt á honum og vetraraðstæður erfiðar. Lokanir eru sagðar tíðar og fyrirsjáanlegt að með aukinni umferð verði Klettháls meiri þröskuldur en hann er í dag. Lokunartilvik hafa verið 31 að meðaltali á ári á tímabilinu 2010-2022 og lokunin varði að meðaltali 14 sólarhringa á ári. Vakin er athygli á því að atvinnuuppbygging, einkum á sviði fiskeldis auki kröfur um daglegar öruggar samgöngur.

Þrátt fyrir þennan rökstuðning í greinargerðinni fyrir bættum daglegum samgöngum er það niðurstaða Vegagerðarinnar að jarðgöng í gegnum Klettháls séu ekki mjög brýn í samanburði við aðra jarðgangakosti þar sem ferjan Baldur sé til staðar.

Hugmyndir um jarðgöng geri ráð fyrir 3,8 km löngum göngum og kostnaður er talin verða um 10,4 milljarðar króna.

Fyrir Alþingi liggur tillaga um kaup á nýrri Breðafjarðarferju og í umsögn Vesturbyggðar um tillöguna er hvatt til þess að hún verði samþykkt og lögð áhersla á öruggar samgöngur til og frá sunnanverðum Vestfjörðum sem náð yrði með nýrri ferju.

„Yfir vetrartímann eru sunnanverðir Vestfirðir í raun eyja, þar sem Dynjandisheiði og Klettsháls lokast reglulega. Fyrir sunnanverða Vestfirði hefur lokun á Klettshálsi gríðarleg áhrif, en heiðin stendur 332 m. yfir sjávarmáli og veður þar geta verið erfið yfir háveturinn. Lokundagar eru margir og ófáir íbúar svæðisins hafa eytt nótt á hálsinum, fastir að reyna komast leiðar sinnar.“

DEILA