Stöðvun hvalveiða: ekki gætt meðalhófs

Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaþingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi segir að sér finnist matvælaráðherrann ekki hafa gætt meðalhófs með ákvörðun sinni, aðspurð um hver afstaða hennar væri til ákvörðunar matvælaráðherra um hvalveiðibann út ágúst.

„Ég hef ekki forsendur til að meta réttmæti ákvörðunar ráðherrans um tímabundna stöðvun hvalveiða í sumar,“ sagði Lilja Rafney og sagði að hún hefði viljað sjá traustari lagagrundvöll undir þessari ákvörðun sem og hvaða ástæður lægju því að baki að ákvörðunin var tekin með jafn skömmum fyrirvara og gert var.

Hún sagðist ekki hafa upplýsingar um forsendur ákvörðunarinnar og gæti því ekki tekið afstöðu til málsins. „Ég vil hins vegar taka fram að ég hef ekki lagst gegn sjálfbærri nýtingu auðlinda og þar á meðal hvala, enda sé þess gætt að nota alltaf bestu og fljótlegustu aðferðir sem völ er á við aflífun dýranna.“

Bjarni Jónsson, alþm Vg í Norðvesturkjördæmi var einnig inntur eftir afstöðu sinni en svar hefur ekki borist frá honum.

DEILA