Orkumál: lagt til að greiða fyrir Vatnsdalsvirkjun

Einar K. Guðfinnsson, formaður starfshópsins kynnir skýrsluna. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Lokaskýrsla starfshóps umhverfisráðherra um eflingu samfélags á Vestfjörðum var kynnt í dag á fundi í Birkimel á Barðaströnd. Ráðherra kom fljúgandi vestur en svo óvenjulega vildi til að ekki var hægt að lenda á Bíldudal. Var ráðherrann því í fjarfundi við kynninguna.

Einar K. Guðfinnsson, formaður starfshópsins kynnti skýrsluna en auk hans voru Jón Árnason, Patreksfirði og Arna Lára Jónsdóttir, Ísafirði í starfshópnum. Samstaða var um tillögurnar sem voru fjölmargar. Að sögn nefndarmanna er tíminn naumur, nú þegar vantar rafmagn á Vestfirði og olía notuð til þess að framleiða varaafl í miklum mæli. Aflþörfin mun aukast um 80% fyrir lok yfirstandandi áratugs.

Starfshópurinn leggur til að ráðherra verði við erindi frá Orkubúi Vestfjarða um afléttingu friðaskilmála á Vatnsfjarðarfriðilandi á afmörkuðu svæði innan friðlandsins svo unnt verði að láta framkvæmda umhverfismat fyrir 20 – 30 MW virkjun í Vatnsdal.

Einar K. Guðfinnsson sagði í kynningu sinni að umræddur virkjunarkostur myndi auka afhendingaröryggi um 80% á Vestfjörðum, styrkja flutningslínur og auka flutningsgetu vesturlínu, draga úr olíunotkun, auk þess að vera arðbær.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra sagðist myndu kynna tillögurnar í ríkisstjórn en hann myndi ekki liggja lengi yfir tillögunum. Tók hann undir það að tíminn væri naumur til aðgerða til þess að bregðast við loftslagsáskorunum og leitast við að ná þeim markmiðum sem ríkisstjórnin hefur sett sér.

DEILA