Ofanflóðagjald: nærri 60% renna í ríkissjóð

Ofanflóðavarnir á Patreksfirði - 40 árum eftir að mannskætt flóð féll. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Nærri 60% tekna af ofanflóðagjaldi sem innheimt var á árunum 2009 til og með 2019 runnu beint í ríkissjóð og var ekki varið til ofanflóðavarna eins og mælt er fyrir um í lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Þetta kemur fram í skriflegu svari á Alþingi frá ágúst 2021 við fyrirspurn frá Þorsteini Sæmundssyni. Beðið er svara frá umhverfisráðuneytinu um nánari upplýsingar og sérstaklega hvers vegna gert er ráð fyrir að fyrirhugaðar framkvæmdir á Flateyri við ofanflóðavarnir muni taka 3 ár.

Fram kemur að árið 2019 voru tekjurnar af ofanflóðagjaldinu 2.721 milljón króna en það ár var einungis 418 milljónum króna varið til framkvæmda við ofanflóðavarnir. Það eru einungis 15% af tekjunum. Mismunurinn rennur lögum samkvæmt í ríkissjóð. Árið áður, 2018 voru tekjurnar 2.483 milljónir króna og 1.113 m.kr. fóru til framkvæmda. Það ár fóru 45% til framkvæmda. Þegar lagt er saman fyrir öll árin 11 frá 2009 til 2019 voru tekjurnar af ofanflóðagjaldinu 22.497 m.kr. og til framkvæmda á sömu árum fóru 9.767 m.kr. eða einungis 43% af tekjunum. Mismunurinn er 12.730 m.kr. sem rann í ríkissjóð.

Í svarinu kemur fram að nettóstaðan gagnvart ríkissjóð sé 13.919 m.kr. í lok árs 2019 Það er að ofanflóðagjaldið hefur skilað þessu í tekjur umfram það sem varið hefur verið til ofanflóðavarna.

Halldór Halldórsson, fyrrum bæjarstjóri á Ísafirði var stjórnarmaður í Ofanflóðasjóði og gagnrýndi seinagang framkvæmda ofanflóðasjóðs um árabil og að fjármunir sem eyrnamerktir væru uppbyggingu ofanflóðavarna rynnu ekki í málaflokkinn. Hann var ekki endurkjörinn í stjórn Ofanflóðasjóðs þar sem hann hafði setið tilnefndur af sveitarfélögum, þrátt fyrir að hafa gefið kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

DEILA