MERKIR ÍSLENDINGAR- MAGNÚS JÓNSSON

Magnús Jónsson fæddist í Bolungarvík þann 7. ágúst 1916.

Hann var sonur hjónanna Jóns Bjarnasonar lögregluþjóns á Ísafirði, f. 1886 og Margrétar Maríu Pálsdóttur, f. 1984.

Eiginkona Magnúsar var Sigrún Jónsdóttir, f. 12.2. 1918, d. 14.5. 2013. Foreldrar hennar voru Jón Ívarsson, kaupfélagsstjóri á Höfn í Hornafirði og alþingismaður, og k.h. Guðríður Jónsdóttir.

Börn Magnúsar og Sigrúnar eru:
 Gyða, f. 5.11. 1942, hjúkrunarfræðingur og Jón, f. 23.3. 1946, hæstaréttarlögmaður og fv. alþingismaður.

Magnús missti móður sína ungur og var sendur í fóstur í Æðey og ólst þar upp hjá þeim Æðeyjarsystkinum, Ásgeiri, Bjarna og Sigríði.

Magnús lauk kennaranámi við Kennaraskóla Íslands og var kennari í Vestmannaeyjum 1942-1945. Skólastjóri Gagnfræðaskólans á Akranesi 1945 og Iðnskólans á Akranesi 1946-1951.

Veturinn 1947-1948 fór Magnús um Norðurlönd að ráði þáverandi fræðslustjóra, Jónasar B. Jónssonar, til að kynna sér verknám unglinga og skipulagningu verktækni og bóknáms á Norðurlöndum. Síðar fór Magnús til Bandaríkjanna sömu erinda. Nýjar hugmyndir skólamanna á þeim tíma voru um að tengja betur saman bóknám og verknám á grundvelli þeirrar hugsjónar að koma sem flestum til þess náms sem hentaði hverjum og einum og vinna að auknum skilningi á milli þeirra sem stunduðu handverk og háskólamanna. Magnús skipulagði verknámskennslu á Íslandi á þeim grundvelli, sem var undanfari hugmynda og stofnunar fjölbrautaskóla.

Magnús varð skólastjóri Gagnfræðaskóla verknáms við stofnun hans 1951, en sá skóli varð síðar Ármúlaskóli, því starfi gegndi Magnús til starfsloka. Starf með ungu fólki og að koma því til þroska var lífsstarf Magnúsar og hugsjón.

Magnús gegndi ýmsum forustustörfum í félagsstörfum kennara og skólastjóra og var m.a. formaður Félags skólastjóra um skeið.

Magnús Jónsson lést þann 6. júní 2012.

Skráð af Menningar-Bakki.

DEILA