Mikil aðsókn ferðamanna hefur verið í Litlabæ í Skötufirði allt frá því að opnað var um miðjan maí segir Guðrún Fjóla Kristjánsdóttir. Á laugardaginn var stöðugur straumur gesta í bæinn í kaffi og vöfflur þegar Bæjarins besta var þar á ferð. Hún segir að um þriðjungurinn séu erlendir ferðamenn af skemmtiferðaskipunum, annar þriðjungur séu erlendir ferðamenn á eigin vegum og um þriðjungur séu Íslendingar.
Ljóst er að gestir skipta þúsundum yfir sumarið en opið er fram í september.
Foreldrar Guðrúnar Fjólu, sem búa á Hvítanesi, Kristján Kristjánsson og Sigríður Hafliðadóttir, hafa staðið að rekstrinum frá upphafi. Kaffihúsið var opnað eftir að endurbótum á gamla bænum lauk. Það er Þjóðminjasafnið sem hefur umsjón með húsinu og stóð að endurbótunum.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.