Cycling Westfjords: fimmdaga hjólreiðakeppni hófst á þriðjudag

Meira en 80 hjólreiðakappar frá 20 löndum taka þátt í hjólreiðakeppninni Arna Westfjords Way Challenge sem nú er haldin í annað sinn. Keppnin hófst á þriðjudaginn á Ísafirði og lagt var af stað frá Silfurtorgi kl 7:30 að morgni. Keppendur munu hjóla 956 kílómetra leið um Vestfirði, í sumarbirtu allan sólarhringinn.

Í ár hefur verið bætt við sérstökum valmöguleika við keppnina fyrir hjólreiðamenn sem vilja taka þátt í lokasprettinum frá Patreksfirði til Ísafjarðar 2. júlí. Þá gefst allt að 100 hjólreiðaköppum í viðbót kostur á að slást í hópinn á miðnætti þegar fjórði og síðasti leggur keppninnar, ArcticFish Midnight Special, verður ræstur og þeir geta tekið þátt í lokahófinu á Ísafirði.

Keppnin tekur fimm daga og er sú fyrsta sinnar tegundar að sögn mótshaldara. Hún er skipulögð á nýjan hátt. Ekki er eingöngu brunað áfram að lokamarkinu heldur er keppninni ætlað að tengja samfélag og þátttakendur. Hjólreiðakappar eru hvattir (og skyldaðir) til að koma við á „menningarlegum viðkomustöðum“ svo sem heitum laugum, kaffihúsum eða söfnum og á þann hátt berst fjörið í keppnisvikunni um allt svæðið.

Hjólreiðafólkið kemur við á yfir 20 menningarlegum viðkomustöðum í vikunni, meðal annars kaffihúsinu í Litlabæ, fjölskyldureknum dýragarði að Hólum í Búðardal, heitum laugum svo sem Reykjafjarðarlaug í Arnarfirði, Dynjanda og Svalvoga í Dýrafirði þar sem vegurinn liggur í flæðarmálinu. Keppninni lýkur við Hótel Ísafjörð þar sem verðlaunaafhending fer fram.

Fjórtán íslenskir styrktaraðilar styrkja keppnina, en hún dregur nafn sitt af Mjólkurvinnslunni Örnu í Bolungavík sem framleiðir laktósafríar mjólkurvörur.

Hægt er að fylgjast með því hvar keppendur eru staddir hér

DEILA