Torfnes: samið við Vestra um umsjá knattspyrnuvalla

Íþróttavöllurinn á Torfnesi og stúkan til vinstri.

Fyrir bæjarráði Ísafjarðarbæjar liggur samningur um umsjá knattspyrnuvalla og 1. hæð í vallarhúsi á Torfnesi við knattspyrnudeild Vestra, meistaraflokk. 

Undanfarin 2 ár hefur slíkur samningur verið gerður við knattspyrnudeild Vestra, meistaraflokk, um umsjá með knattspyrnuvöllum og 1. hæð í vallarhúsi í 6 mánuði á ári.

Samningurinn sem nú er lagður fram er eins og þeir sem gerðir hafa verið síðastliðin tvö ár nema að fjárframlagið hefur aukist sem nemur 0,25 stöðugildi. Ástæðan fyrir því er að knattspyrnudeild Vestra, meistaraflokkur, telur að félagið þurfi meira fjármagn til að sinna öllu svæðinu þar sem verkefnið sé of mikið fyrir einn starfsmann.

Þegar Ísafjarðarbær sinnti þessu verkefni voru ráðnir 2 sumarstarfsmenn á knattspyrnusvæðið, auk þess var starfsmaður úr íþróttahúsinu notaður í þetta verkefni á meðan forstöðumaður sinnti vallarstjórn.

Samningurinn hefur engan auka kostnað í för með sér. Gert er ráð fyrir fjárframlaginu í fjárhagsáætlun sem annars hefði verið nýtt til að ráða 2 sumarstarfsmenn, ef Ísafjarðarbær hefði sinnt verkefninu. Viðbótar fjárframlagið sem nemur 0,25 stöðugildi í launaflokki 121 er tekið af Vinnuskóla Ísafjarðarbæjar þar sem ekki hefur gengið að ráða í allar
flokkstjórastöðurnar og nemur sú upphæð kr.826.665.

Bæjarráð vísaði samningnum til íþrótta- og tómstundanefndar til umsagnar.

DEILA