Strandabyggð: hafnað í Skagafirði

Hólmavík

Umsókn Strandabyggðar um aðild að velferðarþjónustu Skagafjarðar var hafnað að því er fram kemur í fundargerð sveitarstjórnar Strandabyggðar á þriðjudaginn. Upplýst var að umsókn hafi verið send til Velferðarþjónustu Vestfirðinga sem tekin verði fyrir á næstu vikum.

Strandabyggð er með frest út maí til að tryggja þjónustu á sviði barnaverndar og málefna fatlaðra. Farsældarrútan kemur 10. maí til að kynna nýju farsældarlögin.

Í febrúar lá fyrir sveitarstjórn tillaga um aðild að Velferðarþjónustu Vestfirðinga með Ísafjarðarbæ sem leiðandi sveitarfélag. Tillögunni var vísað til vinnufundar sveitarstjórnar. Þar var skoðað að sameinast annars vegar Barnaverndarþjónustu mið-Norðurlands og hins vegar samstarf um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi Vestra. Á næsta fundi sveitarstjórnar þann 14. mars var samþykkt að sækja um aðild að félagsþjónustu Skagafjarðar.

Strandabyggð er í samstarfi með öðrum sveitarfélögum í Strandasýslu og Reykhólahreppi um félagsþjónustu og þá lá fyrir að önnur sveitarfélög samstarfsins höfðu ákveðið að vera í Velferðarþjónustu Vestfirðinga.

DEILA