Skjaldborg – Dómnefnd 2023

Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda verður haldin á Patreksfirði um hvítasunnuhelgina 26.-29. maí.

Gjaldgeng til frumsýninga 2023 eru verk sem uppfylla eftirfarandi skilyrði: 

  • Heimildamyndir sem ekki hafa verið sýndar opinberlega á Íslandi og munu ekki verða sýndar á Íslandi áður en Skjaldborg 2023 er lokið.
  • Heimildamyndir sem teljast íslensk framleiðsla.

Athugið að hægt er að sækja um fyrir erlendar myndir sem fjalla um íslensk málefni en þær myndir eru ekki gjaldgengar í keppni.

Dómnefnd Skjaldborgar 2023

Margrét Bjarnadóttir starfar jöfnum höndum á sviði dans, myndlistar og skrifa. Á meðal nýlegra verka hennar er sex rása vídeó-innsetning fyrir gítarballettinn No Tomorrow sem hún vann í samstarfi við Ragnar Kjartansson, tónskáldið Bryce Dessner og Íslenska dansflokkinn. Margrét samdi einnig sviðshreyfingar fyrir Cornucopiu, tónleikasýningu Bjarkar.

Anton Máni Svansson er kvikmyndaframleiðandi og meðeigandi Join Motion Pictures. Myndir hans hafa fengið dreifingu víðsvegar um heiminn, keppt á A hátíðum líkt og Cannes, Berlín, og Feneyjum, og hlotið yfir 230 verðlaun. Hann framleiddi meðal annars myndirnar Hjartasteinn, Hvítur, hvítur dagur, In Touch, Berdreymi og Volaða Land.

Jón Bjarki Magnússon er heimildamyndagerðarmaður með bakgrunn í blaðamennsku og meistaragráðu í sjónrænni mannfræði frá Freie Universität í Berlín. Verk hans hafa verið sýnd og verðlaunuð á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum. Hann leggur stund á doktorsnám á sviði sjónrænnar mannfræði við Maynooth háskóla á Írlandi ásamt því að sinna heimildamyndagerð hjá framleiðslufyrirtæki sínu SKAK bíófilm.

DEILA