Samfylkingin býður til samræðna um heilbrigðismál á Vestfjörðum

Samfylkingin hefur boðað til tveggja opinna funda um heilbrigðismál á Vestfjörðum fimmtudaginn 25. maí. Fundirnir eru liður í nýju málefnastarfi flokksins sem er nú með breyttu sniði undir forystu nýs formanns, Kristrúnar Frostadóttur.

Að auki munu fulltrúar Samfylkingarinnar og stýrihóps flokksins um heilbrigðismál eiga vinnufundi með fulltrúum Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, bæði á Patreksfirði og á Ísafirði.

Samræður um heilbrigðismál fara fram fimmtudaginn 25. maí á eftirfarandi stöðum:

Patreksfjörður — súpufundur kl. 12:00 í Félagsheimili Patreksfjarðar

Ísafjörður — kaffifundur kl. 20:00 í Edinborgarhúsi

„Núna erum bara að hlusta og afla upplýsinga. Fundirnir eru opnir öllum og enginn verður spurður um flokksskírteini,“ segir Kristrún í tilkynningu til BB.is.

Heilbrigðismálin á dagskrá fram á haust

„Heilbrigðismálin eru á dagskrá hjá okkur núna og alveg fram á næsta haust. Fyrsta skrefið er opnir fundir með almenningi um land allt — en við erum með stýrihóp sem leiðir vinnuna og fundar einnig með sérfræðingum og fólki af gólfinu.“

Kristrún á ekki heimangengt sjálf í þetta sinn en boðar komu sínu vestur á firði með haustinu. „Ég er með þriggja mánaða kríli núna svo ég kemst ekki sjálf á alla fundina. En ég sendi gott fólk í staðinn, Jóhann Pál Jóhannsson þingmann og Önnu Sigrúnu Baldursdóttur, sem er formaður í stýrihópnum okkar um heilbrigðismál, hjúkrunarfræðingur og meðal annars fyrrverandi aðstoðarmaður forstjóra Landspítala og þar áður velferðarráðherra,“ segir Kristrún og bætir við:

„Við ljúkum þessari málefnavinnu um heilbrigðismál næsta haust. Þá taka atvinna og samgöngur við og ég hlakka til að koma vestur og taka samtalið um þau mál.“

Frá heimsókn Samfylkingarinnar á HSS.

DEILA