Raforkukerfið: ný hindrun fyrir Vestfirðinga?

Væntanlegt stæði kalkþörungaverksmiðjunnar í Súðavík. Unnið er að landfyllingu. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis leggur til að frumvarp um breytingu á raforkulögum verði samþykkt. Þar er dreifiveitum fengnar betri heimildir til þess að innheimta kostnað vegna nýrrar tengingar „þegar sýnt er að kostnaður við nýja tengingu verði umfram gjaldskrá, þ.e. þegar fyrirséð er að væntanlegar tekjur dreifiveitu standi ekki undir eðlilegum stofn- eða rekstrarkostnaði vegna tengingarinnar.“

Í umsögn Vestfjarðastofu um þingmálið er lýst áhyggjum af áhrifum frumvarpsins á Vestfjörðum þar sem flutningskerfið sem fyrir er „nær ekki almennu viðmiði“ með þeim áhrifum að kostnaði við að gera flutningskerfið svo úr garði sem vera ber yrði velt yfir á notanda sem vill fá tengingu við kerfið. Færi svo yrði áhrifin neikvæð og framleiðendur á Vestfjörðum stæðu lakar að vígi en annars taðar á landinu. Nefnt er sem dæmi „fyrirhugaða Kalkþörungaverksmiðju í Súðavík og eins má almennt með stöðu flutningskerfis raforku til Súðavíkur sem er löngu úrelt og afskrifað.“ Einnig er velt upp mögulegum áhrifum á orkuskiptum í fiskeldi þar sem koma þarf nýjum raforkustreng til sjókvíaeldissvæða.

„Áhugavert er að fá úr því skorið hvort sá kostnaður teljist viðbótarkostnaður, sem geti þá dregið úr vilja til að koma
verkefninu í framkvæmd og rekast þar með á við áherslur í loftlagsmálum.“ segir í umsögn Vestfjarðastofu.

Meirihluti atvinnuveganefndar svarar þessum áhyggjum þannig í nefndaráliti sínu að „í greinargerð með frumvarpinu er rakið að kerfisframlag taki fyrst og fremst til stærri framkvæmda. Tilgangur þeirra breytinga sem lagðar eru til með frumvarpinu er að tryggja að viðbótarkostnaður við nýjar tengingar falli ekki á almenna notendur.“

Ekkert segir í álitinu um það hvort t.d. Kalkþörungaverksmiðjan eigi að bera kostnaðinn af því að raforkukerfið til Súðavíkur er ófullnægjandi.

DEILA