Ísafjarðarbær: Rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar verði ekki stofnað í hættu

Reykjavíkurflugvöllur séð til suðurs, Reykjavík, Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður í bakgrúnni. Mynd: Mats Wibe Lund.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar ræddi á fundi sínum á fimmtudaginn málefni Reykjavíkurflugvallar af gefnu tilefni. Niðurstaða starfshóps sem Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, skipaði til að meta áhrif nýrrar byggðar í Skerjafirði á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar og skilaði af sér í síðustu viku er að byggðin muni að óbreyttu þrengja að og skerða nothæfi Reykjavíkurflugvallar vegna breytinga á vindafari. Starfshópurinn telur þó ekki þörf á að hætta við byggingarhugmyndir í Nýja Skerjafirði og bendir á mögulegar mótvægisaðgerðir.

Hefur sú niðurstaða Innviðaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar að hafist verði handa við jarðvegsframkvæmdir og þar með undirbúning uppbyggingar í Nýja Skerjafirði vakið upp umræðu um framtíð flugvallarins.

Bæjarstjórnin samþykkti einróma eftirfarandi ályktun þar sem lögð er áhersla á að rekstraröryggi flugvallarins verði tryggt næstu 20 – 25 árin:

„Reykjavíkurflugvöllur er mikilvægur hlekkur í tryggum samgöngum fyrir landsbyggðina og mikilvæg tenging við höfuðborgarsvæðið. Það er bæði öryggis- og hagsmunamál að völlurinn geti áfram þjónað því fjölbreytta hlutverki sem honum eru ætluð með tilliti til sjúkraflugs, aðgengi almennings að innviðum, atvinnulífs og uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Reykjavík er höfuðborg okkar allra en skipulagsvaldið yfir Skerjafirðinum er hennar. Þess vegna er mjög mikilvægt að tryggt verði að rekstaröryggi Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri verði ekki stofnað í hættu. Samkomulag ríkis og borgar frá árinu 2019 um að tryggja rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli a.m.k. næstu 20-25 árin helst óbreytt.“

DEILA