Evrópuhreyfingin: 44,2% fylgjandi aðild Íslands að ESB

Stuðningur við aðild Íslands að Evrópusambandinu hefur aldrei mælst meiri, samkvæmt nýlegri könnun Maskínu (áður MMR) sem hefur kannað stuðninginn með reglubundnum hætti frá 2011.
Stuðningur við að Ísland gangi í Evrópusambandið mældist 44,2% í apríl, og slær við fyrra meti frá í febrúar, sem var 40,8%.
Þeim fækkar sem eru á móti inngöngu í sambandið og eru þau nú komin niður í 33,9% (-3% frá í febrúar).
Ef einungis þeir sem taka afstöðu er taldir eru 56,6% hlynnt aðild en 44,4% andvíg.

59% vill þjóðaratkvæðagreiðslu

„Þetta er ekki tilviljunakennd niðurstaða einnar mælingar heldur sjáum við afgerandi hneigni yfir nokkuð langt tímabil, þar sem stuðningur vex og andstaða dvínar. Að sama skapi er fjöldi þeirra sem vill halda þjóðaratkvæðagreiðslu afgerandi, kominn upp í 59%, en í desember 2022 voru það 48%“ segir Jón Steindór Valdimarsson, formaður Evrópuhreyfingarinnar.
„Við viljum fá að ganga til viðræðna við Evrópusambandið og sjá þá svart á hvítu hvað slíkur samningur felur í sér, kosti hans og galla. Einu viðræðunum um aðild var hætt í miðju kafi og því fengu sérhagsmunir og hræðsluáróður að ráða ferðinni í það skiptið. Það má ekki endurtaka sig. Þegar niðurstaða aðildarsamnings liggur fyrir getur þjóðin tekið upplýsta ákvörðun og kosið um aðild.“

könnunin var gerð dagana 24. til 28. apríl 2023 og voru svarendur 2.343 talsins.

DEILA