Dalamenn í samstarf um félagsþjónustu

Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps tekur vel í ósk Dalabyggðar um aðild þess að félagsþjónustu Stranda og Reykhólahrepps en setur þau skilyrði að ráðinn verði starfsmaður með búsetu í Reykhólahreppi og að sett verði meira fjármagn til greiðslu bókhaldsþjónustu sem Reykhólahreppur veitir.

Ingibjörg B. Erlingsdóttir, sveitarstjóri er formaður stjórnar félagsþjónustunnar. Að henni standa auk Reykhólahrepps sveitarfélögin þrjú í Strandasýslu, Strandabyggð, Kaldrananeshreppur og Árneshreppur. Ingibjörg sagðist búast við að Dalabyggð yrði aðili að félagsþjónustunni á næstu mánuðum. Félagsþjónustan var stofnuð árið 2011 og annast almenna félagsþjónustu auk malefna fatlaðra í sveitarfélögunum. Um 20 manns eru á launaskrá og rekstur félagsþjónustunnar, sem rekið er í byggðasamlagi, er um 100 m.kr. á ári. Um helmingur þess kemur sem framlag frá sveitarfélögunum og hinn helmingurinn er vegna málefna fatlaðra. Soffía G. Guðmundsdóttir, Hólmavík er félagsmálastjóri.

Ingibjörg sagði að þetta væri aukið samstarf sveitarfélaganna og að Dalabyggð væri að færa sig í átt til hinna sveitarfélaganna með þessu skrefi. Það yrði svo að koma í ljós hvert framhaldið yrði. Reykhólahreppur, Strandabyggð og Dalabyggð eru þegar í samstarfi um rekstur slökkviliðs með slökkviliðsstjóra í fullu starfi og það hefði gefist vel.

DEILA