Vistvæn, niðurbrjótanleg duftker úr endurunnum pappír

Aska Bio Urns er nýtt fyrirtæki sem hefur hafið framleiðslu á vistvænum, niðurbrjótanlegum duftkerum úr endurunnum pappír.

Þau duftker sem hafa verið í boði hingað til hafa flest verið frekar einsleit en með aukningu bálfara þá hefur opnast möguleiki á að auka úrvalið og um leið vera í takt við endurvinnsluhagkerfið og þá staðreynd að mikið magn af pappír fellur til. Þetta skapar rými fyrir duftker sem talar til vaxanda krafa um endurunnar vörur sem hafa vistvæn áhrif á umhverfið.

Þrjár konur standa á bak við Aska Bio Urns, Dögg Guðmundsdóttir iðnhönnuður, en hún á heiðurinn af útliti duftkersins sem er innblástið af íslenskri náttúru. Dögg hefur átt farsælan og langan feril sem hönnuður og hefur sýnt hönnun sína hjá virtum hönnunarhúsum víða um veröld.

Heiðdís Einarsdóttir menningarmiðlari, en hún hefur lengi starfað við kynningar- og sölustörf bæði hjá opinberri stjórnsýslu og á almennum starfsvettvangi.

Þórhildur Einarsdóttir viðskiptafræðingur, en hún hefur átt langan starfsferil í fjármálum og markaðssetningu og er að ljúka MBA námi frá Háskólanum í Reykjavík.

Frá vinstri: Heiðdís, Dögg, Þórhildur. Mynd: Einar Jarl Björgvinsson.

“Duftkerin okkar eru niðurbrjótanleg, framleidd úr endurunnum pappír, sem dregur úr úrgangi, minnkar kolefnislosun og varðveitir náttúruauðlindir. Við viljum stuðla að grænni framtíð og hjálpa til við að vernda og hlúa að umhverfinu fyrir komandi kynslóðir.

Við notum pappír sem inniheldur beðma (cellulose) og er af þeim sökum náttúrulegt endurvinnanlegt hráefni. Úr því er gerður massi sem er laus við lím og önnur efni sem menga náttúruna og eftir að þau hafa verið steypt eru duftkerin látin þorna með náttúrulegum aðferðum. 

Duftkerin okkar eru nýr vistvænn valmöguleiki, hönnuð með bæði virðingu fyrir og vísun í náttúruna þar sem form þeirra er innblásið af einstöku og náttúrulegu formi stuðlabergsins sem finnst víða í íslensku landslagi”.

Hið sexhyrnda form stuðlabergsins myndast þegar náttúran leitast við að búa til hringlaga form og við ákveðnar aðstæður þegar hraun hefur runnið og byrjar að storkna, leitast það við að þorna í hring og er sexstrengurinn, stuðlabergið, það form sem kemst næst hringmyndun. Önnur sexhyrnd form er að finna víðar í náttúrunni, svo sem í býflugnabúum og snjókornum. Sexhyrningurinn hefur auk þess ýmsar táknrænar merkingar í trú og heimspeki. Þannig getur hann táknað sátt, jafnvægi, visku, ást og sanngirni. 

Aska Bio Urns duftkerið verður til sýnis í Epal í Skeifunni á Hönnunarmars dagana 3. – 7. maí næstkomandi.

Opnunartími Epal á Hönnunarmars er sem hér segir:

Þriðjudagur, opnunarhóf frá kl 17-19, miðvikud 3. maí – föstud 5. maí kl 10-18,

laugard 6. maí kl 10-16, Sunnudagur 7. maí, lokað.

DEILA